Innlent

Hlut­fall ný­nema sem út­skrifast aldrei verið hærra

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Brauskráningarhlutfallið hefur ekki mælst hærra frá því að Hagstofan hóf mælingar árið 1995.
Brauskráningarhlutfallið hefur ekki mælst hærra frá því að Hagstofan hóf mælingar árið 1995. Vísir/Vilhelm

Brautskráningarhlutfall nýnema í framhaldsskólum hefur ekki mælst hærra hér á landi og hefur vaxið stöðugt síðan árið 1995, eins langt og tölur Hagstofunnar ná. Það er, hlutfall þeirra nýnema sem hefur útskrifast fjórum árum eftir upphaf skólagöngu.

Rúm 64 prósent þeirra sem voru nýnemar árið 2018 höfðu útskrifast árið 2022. Brotthvarf úr námi hafi verið í kringum 20 prósentin síðustu þrjú ár en 20,3 prósent nýnema haustið 2018 höfðu hætt námi fjórum árum síðar. Þá voru rúmlega fimmtán prósent nýnema haustsins 2018 enn í námi án þess að hafa útskrifast fjórum árum síðar.

Hér má sjá hvernig hlutfall brautskráðra á fjórum árum hefur vaxið úr 39 prósentum upp úr 64 prósent frá nýnemum sem hófu nám í framhaldsskóla árið 1995 til þeirra sem hófu nám árið 2018.

Brautskráningarhlutfall var hæst á meðal nemenda sem fæddir eru erlendis og eiga foreldra sem báðir eru fæddir á Íslandi en rúm 80 prósent þeirra sem hófu nám 2018 höfðu útskrifast 2022. 67 prósent þeirra sem hafa engan erlendan bakgrunn höfðu útskrifast og rúm 64 prósent þeirra sem fæddust erlendis og eiga eitt foreldri sem fætt er erlendis.

Tæpt 61 prósent þeirra sem fæddir eru á Íslandi en eiga foreldra sem báðir eru fæddir erlendis höfðu útskrifast 2022 og 57 prósent þeirra sem fæddust hér á landi og eiga eitt foreldri fætt erlendis.

Lægst var brautskráningarhlutfallið á meðal innflytjenda, það er þeirra sem fæddust erlendis og eiga báða foreldra fædda erlendis, en tæplega 41 prósent þeirra hafði útskrifast fjórum árum eftir upphaf náms. Í tilkynningu frá Hagstofunni kemur fram að brautskráningarhlutfall innflytjenda hafi farið hækkandi en að það sé enn mun lægra en á meðal nýnema með íslenskan bakgrunn.

Á vef Hagstofunnar kemur einnig fram að það skipti máli hver aldur barnsins var þegar það fluttist til Íslands. Brautskráningarhlutfall þeirra sem fluttust til landsins fyrir sjö ára aldur var miklu hærra en þeirra sem fluttust til landsins sjö ára eða eldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×