Því já, dagarnir geta verið ansi langir í vinnunni þegar okkur leiðist.
Sem oft vill gerast á sumrin, þegar flestir eru í fríi en nokkrir standa enn vaktina í vinnunni þótt viðskiptavinirnir séu fáir og jafnvel engir. Því þeir eru líka í fríi.
Og þegar okkur leiðist, erum við gjörn á að koma okkur ekki heldur í þau verkefni sem hafa jafnvel beðið lengi. Eins og að sortera í möppum í tölvunni eða taka til í einhverri skúffu.
Nei, okkur leiðist svo mikið að við nennum engu. Ekki heldur þessu hangsi sem þó fylgir.
En hvernig væri að snúa þessu við og reyna að skapa skemmtilega stemningu fyrir okkur sjálf og aðra, þannig að dagarnir verði skemmtilegri þar til líf og fjör færist á vinnustaðinn á ný?
Hér eru dæmi um nokkrar hugmyndir.
1. Að skipta um vinnustöð
Hvernig væri að prófa nýja vinnustöð í dag og jafnvel alla næstu daga? Jafnvel þannig að þú skapir stemningu með ykkur sem eruð á staðnum og þið færið ykkur öll til?
2. Það er leikur að læra…
Er eitthvað sem þú hefur verið að velta fyrir þér um tíma að læra? Eitthvað nýtt? Eða verða betri í einhverju?
Hvernig væri til dæmis að læra betur á AI Chat næstu daga? Eru fyrirtæki í þínum geira farin að nýta sér þessa gervigreind í auknum mæli? Því þeim fer fjölgandi íslenskum vinnustöðum sem eru til dæmis með áskrift af þjónustu sem gerir starfsfólkinu kleift að skrifa formlegri tölvupósta og fleira vinnutengt.
Hér er um að gera að hugsa út fyrir boxið.
3. Brandara-kaffi?
Í staðinn fyrir að taka kaffispjall reglulega, kaffitíma eða hádegismat með sama hætti og þú gerir allt árið um kring, hvernig væri að breyta aðeins út af vananum og gera eitthvað nýtt eða öðruvísi?
Búa til einhvers konar skemmtun? Borða annars staðar? Vera með brandara-kaffispjall með vinnufélögunum? Búa til leiki?
Verum hugmyndarík.
4. Að kynnast á nýjan hátt
Í stórum fyrirtækjum gætum við sett okkur markmið um að kynnast nýjum vinnufélögum. Til dæmis að spjalla við einhverja sem við höfum ekki spjallað við áður og starfa á allt annarri deild.
Í smærri fyrirtækjum væri líka hægt að setja sér markmið um að kynnast vinnufélögunum sem nú eru að vinna líka, á annan og nýjan hátt.
Einföld leið er til dæmis að spyrja fólk hvaðan það sé ættað. Því þótt fólk hafi jafnvel alltaf átt heima á sama búsetusvæði, á það sjaldnast við um foreldra þeirra eða ömmur og afa. Það getur leitt til ótrúlega skemmtilegra samtala að fara út í smá ættfræði.
Því oftar en ekki koma jafnvel í ljós einhverjar skemmtilegar tengingar…