Erlent

Sagði Harris van­hæfa sökum barnleysis

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ummælin lét Vance falla í viðtali við Carlson á Fox News árið 2021.
Ummælin lét Vance falla í viðtali við Carlson á Fox News árið 2021.

Myndskeið er í dreifingu á netinu sem sýnir J.D. Vance, varaforsetaefni Donald Trump, gera lítið úr Kamölu Harris og fleiri Demókrötum vegna barnleysis.

Ummælin lét Vance falla í viðtali við Tucker Carlson á Fox News, þegar hann var í framboði til öldungadeildar þingsins fyrir Ohio árið 2021.

Vance sagði landinu stjórna af Demókrötum; „barnlausum kattarkonum“ sem væru ömurlega ósáttar við lífið og vildu þess vegna að öllum öðrum liði illa. 

Nefndi hann Harris sérstaklega auk Pete Buttigieg samgönguráðherra og Alexöndru Ocasio-Cortez þingkonu fyrir New York.

„Hvaða vit er í því að við höfum látið landið okkar í hendurnar á fólki sem á engra beinna hagsmuna að gæta?“ spurði Vance og var að vísa til barnleysisins.

Þess ber að geta að Harris er stjúpmóðir tveggja barna og mánuði áður en viðtalið fór fram tilkynnti Buttigieg að hann og eiginmaður hans hefðu ættleitt tvíbura.

Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra og forsetafrú, er meðal þeirra sem hafa deilt myndskeiðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×