Innlent

Lýsa yfir hættustigi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Búist er við uppfærðu hættumati frá Veðurstofu Íslands í dag.
Búist er við uppfærðu hættumati frá Veðurstofu Íslands í dag. Vísir/Vilhelm

Hættustigi verður lýst yfir vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga. Hættumat Veðurstofu Íslands verður uppfært í gær en kvika heldur áfram að safnast undir Svartsengi og búist er við kvikuhlaupi eða eldgosi á næstunni.

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu.

„Það felur bara í sér þetta venjulega ferli sem við þekkjum ágætlega, þegar við fáum fréttir frá Veðurstofunni,“ segir hún.

„Talið er að mögulega sé von á eldgosi en hvenær getur enginn sagt til um. Þá setjum við kerfið af stað aftur eins og við höfum verið að gera,“ segir hún.

Í uppfærðu hættumati Veðurstofunnar frá í gær segir að landris haldi áfram og kvikusöfnun undir Svartsengi hafi verið nokkuð stöðugt ef horft er til síðustu vikna. Samkvæmt líkanreikningum sé líklegast að um 16 milljónir rúmmetra hafi safnast saman, en talið er að um 13 til 19 milljón rúmmetra þurfi af kviku til að þrýstingurinn valdi eldgosi.

Þar kemur einnig fram að gera þurfi ráð fyrir þeim möguleika að hraun geti komið upp innan Grindavíkur. Í því tilfelli er talið líklegast að gossprunga myndi fyrst opnast norðan við bæinn áður en sprunga opnast innan bæjarmarkanna.

Uppfært 14:53: Áður kom fram að hættumat Veðurstofunnar yrði uppfært í dag. Það er ekki rétt. Hættumatið sem uppfært var í gær gildir til 30. júlí að öllu óbreyttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×