Erlent

Fjöldi mót­mælir við sögu­legt á­varp Netanjahú

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mótmælendur safnast saman við þinghúsið í Washington DC til að mótmæla stríðsrekstri Ísraela á Gasa og vopnasölu Bandaríkjanna til Ísraels.
Mótmælendur safnast saman við þinghúsið í Washington DC til að mótmæla stríðsrekstri Ísraela á Gasa og vopnasölu Bandaríkjanna til Ísraels. EPA/Jim Lo Scalzo

Forsætisráðherra Ísraels Benjamín Netanjahú ætlar að ávarpa báðar deildir Bandaríkjaþings í dag í þeirri von að tryggja áfram stuðning Bandaríkjanna við stríðsrekstur Ísraela á Gasasvæðinu. Hann er fyrsti erlendi þjóðarleiðtoginn til að ávarpa þingið fjórum sinnum. Mikill fjöldi mótmælenda safnast saman við þinghúsið í Washington DC.

Netanjahú, sem ávarpar þingið klukkan sex að íslenskum tíma, kom til Bandaríkjanna á mánudag og mun í framhaldi af ávarpinu á þinginu funda með Joe Biden forseta og Kamölu Harris varaforseta. Þá hyggur hann á fund með Donald Trump, forsetaefni repúblikana. Netanjahú hefur boðað að segja sannleikann um réttlætanlegan stríðsrekstur Ísraela. 

Forsætisráðherrann sætir auknum alþjóðlegum þrýstingi eftir tæplega tíu mánaða stríðsrekstur á Gasa eftir hryðjuverkaárás Hamas samtakanna þann 7. október í fyrra. Reiknað er með miklum mótmælum í Washington DC af hendi stuðningsfólks Palestínu. Að neðan má sjá beina útsendingu AP frá þinghúsinu.

Þá er reiknað með því að einhverjir þingmenn Demókrata sniðgangi ávarpið, þeirra á meðal Bernie Sanders, þingmaður Vermont. Þá verður Kamela Harris fjarverandi en sú skýring gefin að hún eigi ekki heimangengt. 

Talið er að 39 þúsund manns hafi látist á Gasa síðan í október í fyrra en nýjasta áhyggjuefnið er möguleg útbreiðsla lömunarveiki á Gasa. 

Heimsókn Netanjahú, sem er fyrsti erlendi leiðtogi í heiminum til að ávarpa þingið í fjórða skipti,fellur að nokkru leyti í skugga mikilla vendinga vestan hafs. Fyrst má nefna banatilræðið á Donald Trump og svo sú ákvörðun Joe Biden að draga framboð sitt til forseta til baka og styðja við varaforsetann Kamelu Harris.

Frétt BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×