Fótbolti

Argentínu­menn rændir á meðan þeir voru á æfingu á ÓL

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Það sauð á Javier Mascherano, þjálfari argentínska Ólympíuliðsins, eftir tapið fyrir Marokkó.
Það sauð á Javier Mascherano, þjálfari argentínska Ólympíuliðsins, eftir tapið fyrir Marokkó. getty/Marcio Machado

Það á ekki af argentínska Ólympíulandsliðinu í fótbolta karla að ganga. Eftir afar undarlega atburðarrás í fyrsta leik Argentínumanna greindi þjálfari þeirra frá því að þeir hefðu verið rændir á æfingu fyrir leikinn.

Argentína tapaði 2-1 fyrir Marokkó í fyrsta leik sínum á Ólympíuleikunum í dag. Argentínumenn héldu að þeir hefðu jafnað í 2-2 þegar sextán mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma en markið var dæmt af, löngu eftir að leikmenn liðanna voru kallaðir af velli vegna óláta stuðningsmanna Marokkós.

Eftir leikinn sagðist Javier Mascherano, þjálfari Argentínu, ekki hafa upplifað annað eins og atburðarrásina undir lokin. „Þetta er mesti sirkus sem ég hef orðið vitni að á lífsleiðinni,“ sagði gamli Liverpool-maðurinn.

Hann greindi líka frá öðru miður skemmtilegu sem henti argentínska liðið í aðdraganda leiksins. Samkvæmt honum voru Argentínumenn nefnilega rændir á meðan æfingu þeirra stóð.

„Í gær komu þjófar inn á æfingu og rændu okkur. Thiago Almada tapaði hringum, úri og öllu á æfingu á Ólympíuleikunum. Við vildum ekkert segja eftir æfinguna,“ sagði Mascherano sem vonast eflaust til þess að undirbúningurinn fyrir næsta leik, gegn Írak, verði eðlilegri en fyrir leikinn gegn Marokkó.

Mascherano varð Ólympíumeistari með Argentínu sem leikmaður í Peking 2008 og ætlar að endurtaka leikinn sem þjálfari í París.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×