Handbolti

Danir ó­sáttir með mötu­neytið í Ólympíu­þorpinu: Langar raðir og kjötið kláraðist

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þjálfari danska kvennalandsliðsins í handbolta hefur gagnrýnt aðstæður í mötuneytinu í Ólympíuþorpinu.
Þjálfari danska kvennalandsliðsins í handbolta hefur gagnrýnt aðstæður í mötuneytinu í Ólympíuþorpinu. getty/Henk Seppen

Danska íþróttafólkið á Ólympíuleikunum í París er langt frá því að vera sátt við mötuneytið í Ólympíuþorpinu.

„Maturinn er þokkalegur en við þurfum að bíða of lengi eftir honum og það er of lítið til,“ sagði Søren Simonsen, sem fer fyrir danska Ólympíuhópnum, um aðstæðurnar í mötuneytinu.

Jesper Jensen, þjálfari danska kvennalandsliðsins í handbolta, hafði sömu sögu að segja og Simonsen.

„Þú ert búinn að undirbúa þig í fjögur ár en síðan er eitt það mikilvægasta, næringin, undir pari og auðvitað er það mjög miður,“ sagði Jensen.

Þjálfarinn greindi einnig frá því að í fyrradag hefði kjötið í mötuneytinu einfaldlega klárast.

„Sem betur fer er þetta eins fyrir alla en það er synd að þetta sé ekki í lagi,“ sagði Jensen sem sagði þó að ýmsir hlutir, meðal annars samgöngur á Ólympíusvæðinu, væru að lagast. Matarmálin væru þó enn í ólestri.

Samkvæmt Simonsen hafa Danir, ásamt öðrum þjóðum, kvartað yfir ástandinu í mötuneytinu til mótshaldara. Hann sagði þó að íþróttafólkið færi þó aldrei svangt í rúmið enda væri matvörubúð í nágrenninu og þá hefðu Danir tekið með sér örbylgjuofna að heiman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×