Innlent

Á­greiningur um kött og hótanir gegn börnum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla sinnti ýmsum verkefnum í gærkvöldi og í nótt.
Lögregla sinnti ýmsum verkefnum í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til í gærkvöldi vegna ágreinings um kött, þar sem tveir deildu um það hvor væri réttmætur eigandi kattarins. Rannsókn lögreglu á vettvangi varð til þess að kötturinn endaði að lokum í höndunum á réttum eiganda.

Frá þessu er greint í yfirliti lögreglu yfir verkefni gærkvöldsins og næturinnar.

Lögregla var einnig kölluð til vegna einstaklings sem var sagður í annarlegu ástandi. Var hann sagður hafa haft í hótunum við börn í póstnúmerinu 107. Málið er í rannsókn.

Þá var tilkynnt um einstakling í annarlegu ástandi sem var sagður brjóta rúður í fjölbýli í miðborginni til að reyna að komast inn. Sá var handtekinn og er það mál einnig í rannsókn.

Lögregla var einnig kölluð til vegna nokkurra einstaklinga sem voru sagðir reyna að komast inn í kyrrstæðar og mannlausar bifreiðar. Tókst að hafa uppi á þeim og var málið afgreitt á vettvangi.

Í póstnúmerinu 108 var lögregla kölluð til vegna ungmenna sem voru í leyfisleysi í „menntastofnun“. Grunur leikur á um að þau hafi brotist þar inn og er málið í rannsókn. Þá aðstoðaði leigubílstjóri eftir aðstoð vegna líkamsárásar í sama hverfi og er það mál einnig í rannsókn.

Einn var handtekinn í póstnúmerinu 105 grunaður um akstur undir áhrifum og að aka sviptur ökuréttindum en við nánari athugun reyndist viðkomandi eftirlýstur. 

Þá var ökumaður handtekinn í Kópavogi eftir að hafa reynt að stinga lögreglu af en hann er grunaður um akstur undir áhrifum, um að aka ítrekað án ökuréttinda, um óheimila notkun nagladekkja og að aka bifreið í óöruggu ástandi.

Lögreglan í Kópavogi var einnig kölluð til vegna ágreinings í heimahúsi og þá var tilkynnt um þjófnað í verslun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×