Erlent

Fundu lík fimm Ísraels­manna í Khan Younis

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fólkið var myrt 7. október en líkin flutt yfir til Gasa og geymd þar.
Fólkið var myrt 7. október en líkin flutt yfir til Gasa og geymd þar. AP

Ísraelsher hefur endurheimt lík fimm Ísraelsmanna sem voru myrtir í árásunum 7. október síðastliðinn en Hamas-liðar höfðu á brot með sér.

Líkamsleifar Ravid Katz, 51 ára, Oren Goldin, 33 ára, Maya Goren, 56 ára, og hermannanna Kiril Brodski, 19 ára, og Tomer Yaakov Ahimas, 20 ára, fundust í Khan Younis en leitað var að þeim á grundvelli upplýsinga sem meðal annars fengust við yfirheyrslur hryðjuverkamanna, segir í frétt Times of Israel.

Líkin eru komin til Ísrael.

Brodski og Ahimas voru drepnir ásamt yfirmanni sínum Asaf Hamami þegar þeir reyndu að verja þorpið Nirim gegn árás. Lík Hamami var einnig tekið til Gasa en hefur ekki fundist.

Goldin rak verkstæði í þorpinu Nir Yitzhak og var meðal fyrstu manna til að bregðast við árás Hamas.

Gorin var leikskólakennari og var að undirbúa daginn í skólanum þegar hún var myrt. Eiginmaður hennar, Avner, var myrtur á heimili þeirra.

Katz var liðsmaður öryggisteymis þorpsins Nir Oz og lést í bardaga við hryðjuverkamennina. Hann hafði áður komið eiginkonu sinni og fjögurra mánaða gömlu barni fyrir í öryggisherbergi hjá nágranna. Þau voru í felum í margar klukkustundir en lifðu árásina.

Samkvæmt Times of Israel áætlar Ísraelsher að 72 gíslar séu enn í haldi á Gasa og þar sé einnig að finna lík 39 sem séu látnir. Talið er að 251 hafi verið rænt en 105 voru endurheimtir í fangaskiptum.

Aðeins sjö hefur verið bjargað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×