Lífið

Græðgi meðleikonu hafi skemmt endur­komuna

Máni Snær Þorláksson skrifar
Mindy Cohn segir að græðgi meðleikonu sinnar hafi komið í veg fyrir endurkomu þáttanna Facts of Life.
Mindy Cohn segir að græðgi meðleikonu sinnar hafi komið í veg fyrir endurkomu þáttanna Facts of Life. Getty

Bandaríska leikkonan Mindy Cohn segir að endurkoma grínþáttana Facts of Life hafi verið í pípunum. Þau plön hafi hins vegar fokið út um gluggann vegna græðgi einnar leikkonu í hópnum.

Cohn útskýrir í útvarpsþættinum Jeff Lewis Live að samtal um að gera nýja þætti hafi verið komið í gang fyrir nokkrum árum. Búið var að ráða handritshöfund og halda fund á Zoom. „Þetta var á meðan Covid var í gangi og við vorum búin að taka fund með Norman [Lear] um þetta,“ segir Cohn.

Norman Lear var handritshöfundur og framleiðandi Facts of Life auk fjölda annarra þátta. Hann lést af náttúrulegum orsökum í síðastliðnum desember, 101 árs að aldri.

Cohn segir að á einum tímapunkti í ferlinu hafi ein af meðleikkonum, án vitundar hinna í hópnum, reynt að gera samning um sérþætti um sinn karakter. Cohn segir að græðgi þessi hafi brotið niður hópinn.

„Fjörutíu ár af vinskap og systralagi, það voru gífurlegar tilfinningar í spilinu.“

Ein í hópnum hvergi sjáanleg

Cohn neitar að gefa upp hver það var sem skemmdi endurkomuna en tekur þó fram að það hafi verið „ein af stelpunum.“

Þá bætir leikkonan við að glöggir aðdáendur gætu giskað á hver það sé með því að skoða samfélagsmiðla sína. Hún hafi ekki eytt tíma með leikkonunni sem um ræðir á undanförnum árum.

Ef rennt er yfir Instagram-síðu Cohn má sjá að hún hefur eytt tíma með tveimur af þremur meðleikkonum sínum, þeim Kim Fields og Nancy McKeon, á síðustu árum. Leikkonan Lisa Whelchel er hins vegar hvergi sjáanleg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×