Erlent

Sagðist ekki myndu þegja um Gasa eftir fund með Netanyahu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Harris virðist mögulega ætla að verða harðari gagnvart Netanyahu en Biden hefur verið.
Harris virðist mögulega ætla að verða harðari gagnvart Netanyahu en Biden hefur verið. Getty/Andrew Harnik

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna og væntanlegt forsetaefni Demókrataflokksins í komandi forsetakosningum, segist ekki munu þegja þegar kemur að ástandinu á Gasa.

Ummælin lét Harris falla eftir fund með Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, í gær.

„Það sem hefur átt sér stað í Gasa á síðustu níu mánuðum er hörmulegt,“ sagði Harris eftir fundinn. „Myndir af látnum börnum og örvæntingafullu hungruðu fólki að flýja og leita skjóls, stundum í annað, þriðja eða fjórða sinn.“

Harris sagði Ísrael eiga rétt á því að verja sig og fordæmdi Hamas sem grimmileg hryðjuverkasamtök sem hefðu valdið átökunum og framið skelfilegt kynferðisofbeldi. Það skipti hins vegar máli hvernig Ísrael gripi til varna.

„Við megum ekki líta undan þegar kemur að þessum harmleikjum. Við megum ekki leyfa okkur að verða dofin gagnvart þjáningunni og ég mun ekki þegja.“

Harris kallaði eftir stofnun Palestínuríkis og sagðist hafa ítrekað við Netanyahu að það væri kominn tími til að ná samkomulagi um vopnahlé.

Netanyahu fundaði einnig með Biden í gær, þar sem leiðtogarnir ræddu í smáatriðum um mögulegt samkomulag um vopnahlé og fangaskipti. Biden ítrekaði einnig þörfin á því að stuðla að varanlegum frið á Gasa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×