Erlent

Obama-hjónin lýsa yfir stuðningi við Har­ris

Kjartan Kjartansson skrifar
Kamala Harris með Joe Biden (t.v.) og Barack Obama (t.h.) á góðri stundu. Hún nýtur stuðnings beggja til að verða forsetaframbjóðandi demókrata.
Kamala Harris með Joe Biden (t.v.) og Barack Obama (t.h.) á góðri stundu. Hún nýtur stuðnings beggja til að verða forsetaframbjóðandi demókrata. Vísir/EPA

Fyrrverandi forsetahjónin Barack og Michelle Obama lýstu formlega yfir stuðningi sínum við Kamölu Harris, varaforseta Bandaríkjanna, sem forsetaefni Demókrataflokksins í morgun. Obama-hjónin eru einna síðust helstu kanóna flokksins sem heita Harris stuðningi.

Stuðningsyfirlýsingin birtist í myndbandi á samfélagsmiðlum nú í morgun. Í því sést Harris taka við símtali frá Obama-hjónunum og þakka þeim fyrir að styðja sig í baráttunni framundan.

„Fyrr í vikunni hringdum við Michelle í vinkonu okkar Kamölu Harris. Við sögðum henni að við teljum að hún verði frábær forseti Bandaríkjanna og að hún hafi fullan stuðning okkar. Á þessari lykilstundu fyrir landið okkar ætlum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess tryggja að hún vinni í nóvember,“ sagði í færslu sem birtist á samfélagsmiðlareikningum Obama.

Stuðningur Obama-hjónanna er talinn skipta sköpum við Harris sem verður að öllum líkindum útnefnd forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins eftir að Joe Biden forseti tilkynnti á laugardag að hann sæktist ekki eftir endurkjöri. Obama-hjónin eru enn þungaviktarfólk í fjáröflun fyrir flokkinn og eru vinsælir ræðumenn á stærri kosningafundum fyrir frambjóðendur hans, að sögn AP-fréttastofunnar.

Stuðningsyfirlýsing Obama-hjónanna kemur seinna en margra annarra helstu frammámanna Demókrataflokksins. Biden lýsti yfir stuðningi við hana innan klukkustundar eftir að hann tilkynnti að hann ætlaði að draga sig í hlé. Clinton-hjónin og leiðtogar flokksins á þingi sigldu í kjölfarið dagana á eftir.

Skoðanakannanir benda til þess að dregið hafi saman með Harris og Donald Trump, frambjóðanda Repúblikanaflokksins. Trump mælist þó enn með forskot í nær öllum svonefndum lykilríkjum sem ráða í reynd úrslitum forsetakosninganna sem fara fram 5. nóvember.


Tengdar fréttir

Neitar að staðfesta kappræður við Harris fyrr en eftir útnefninguna

Framboð Donald Trump gaf frá sér yfirlýsingu í gær þar sem greint var frá því að vegna yfirstandandi „ringulreiðar“ meðal Demókrata myndi Trump ekki samþykkja kappræður við Kamölu Harris fyrr en hún hefði verið formlega útnefnd forsetaefni Demókrataflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×