Fótbolti

Ferli Theó­dórs Elmars ekki lokið: „Gríðar­legur léttir“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Theódór Elmar Bjarnason slapp við krossbandsslit.
Theódór Elmar Bjarnason slapp við krossbandsslit. Vísir/Diego

Knattspyrnumaðurinn Theódór Elmar Bjarnason fékk heldur betur góðar fréttir í dag þegar hann komst að því að hann væri ekki með slitið krossband eins og óttast hafði verið.

Í gær, föstudag, var greint frá því að Theódór Elmar, leikmaður KR í Bestu-deild karla, hafði orðið fyrir hnémeiðslum á æfingu hjá liðinu í vikunni. Ekki var ljóst hversu alvarleg meiðslin væru.

Theódór Elmar staðfesti þó sjálfur í samtali við Vísi í dag að krossbandið væri heilt. Theódór Elmar, sem er orðinn 37 ára gamall, segir að hann hafi fundið fyrir miklum létti, enda hefði ferli hans að öllum líkindum verið lokið ef að um krossbandsslit væri að ræða.

„Þetta er auðvitað gríðarlegur léttir. Þetta hefði bara verið búið ef það væri slitið,“ sagði Theódór Elmar í samtali við Vísi í dag.

„Það er ekki alveg klárt hvað ég verð lengi frá. Þetta verða tvær, fjórar eða sex vikur, en ég verð klár í lokasprettinn á tímabilinu.“

Hann segist í það minnsta ætla að klára núverandi samning áður en hann tekur einhverskonar ákvörðun um það hvenær skórnir fara á hilluna.

„Já, ég á alveg nóg eftir. Ég klára allavega þetta tímabil og á svo eitt eftir af samningnum,“ sagði Theódór Elmar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×