Erlent

Ellefu ung­menni létust í loft­á­rás á fót­bolta­völl

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Árásin var gerð á yfirráðasvæði Ísraela á Gólanhæðum. 
Árásin var gerð á yfirráðasvæði Ísraela á Gólanhæðum.  AP

Ellefu ungmenni létust og nítján særðust í eldflaugaárás sem gerð var á fótboltavöll á Gólanhæðum í dag. Ísraelsher kennir líbönsku samtökunum Hizbollah um en þau neita sök. 

Árásin er sú mannskæðasta á svæðinu síðan Hizbollah-samtökin skutu eldflaugum á Ísraelshermenn degi eftir að Ísraelsmenn lýstu yfir stríði á hendur Palestínu í október í fyrra. 

Yfirvöld í Ísrael segja að hin látnu hafi verið á aldursbilinu tíu til tuttugu ára. 

Gólanhæðir er landsvæði í Sýrlandi en Ísraelsher hernumdi tvo þriðjuhluta svæðisins i sex daga stríðinu árið 1967. Árásin í dag var gerð á hersetnu svæði Ísraels. 

Ísraelsher kennir Hizbollah um loftárásina á fótboltavöllinn en Mohamad Afif talsmaður samtakanna hafnar því með öllu að Hizbollah hafi komið að árásinni. 

Benjamin Netanjahú forsætisráðherra Ísraels, sem er í opinberri heimsókn í Bandaríkjunum, hefur flýtt heimför sinni vegna árásarinnar. Netanjahú sagði við leiðtoga Druze-hreyfingarinnar í Ísrael að Hizbollah þyrfti að gjalda fyrir árásina, af því tagi sem ekki hafi sést áður. 

Ríkisstjórn Líbanon hefur gefið frá sér yfirlýsingu vegna árásanna, þar sem hún fordæmir hvers lags ofbeldi gagnvart óbreyttum borgurum og kallar eftir tafarlausu hléi á stríðsátökum á öllum vígstöðvum. 

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×