Körfubolti

Sjálfs­öruggur Ant hefur trú á sér sama hver í­þróttin er

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Anthony Edwards er engum líkur.
Anthony Edwards er engum líkur. Tim Clayton/Getty Images

Anthony Edwards – betur þekktur sem Ant, leikmaður Minnesota Timberwolves í NBA-deildinni í körfubolta og bandaríska landsliðsins í körfubolta, er svo sannarlega með sjálfstraustið í lagi.

Hinn 22 ára gamli Ant er með skemmtilegri leikmönnum NBA-deildarinnar og hefur verið líkt við Michael Jordan þar sem hann er svo sannarlega með munninn fyrir neðan nefið. Segja má að karakter hans í myndinni Hustler, með Adam Sandler í aðalhlutverki, sé byggður á hans eigin persónuleika.

Ant er staddur með bandaríska landsliðinu í París þar sem Ólympíuleikarnir fara fram. Þar ákvað ofurstjarnan Steph Curry að æsa aðeins í sínum manni og tilkynna honum að kvennalið Bandaríkjanna í borðtennis – skipað þeim Sally Moyland, Rachel Sung, Amy Wang og Lily Zhang – hafi sagt að þær gætu allar unnið Ant 21-0.

„Í hverju? Borðtennis? Ekki séns. Ég trúi því ekki, ég trúi því ekki. Ég tek þetta ekki í mál. 11-0? Ég er að fara skora eitt stig, allavega eitt stig,“ segir hinn kokhrausti Ant á sinn einstaka hátt.

„Það er aðeins ein leið til að komast að því,“ sagði ein af áskorendum Ants skælbrosandi.

Hvort að Ant hafi á endanum tekið áskoruninni hefur ekki komið fram en þarna gætum við verið komin með hugmynd að hliðar-Ólympíuleikum, þar sem keppendur keppa sín á milli í mismunandi íþróttum.

Hver veit nema það verði á boðstólnum á næstum leikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×