Handbolti

Norsku stelpurnar réttu úr kútnum og völtuðu yfir Dani

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson er þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta.
Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson er þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta. Sanjin Strukic/Pixsell/MB Media/Getty Images

Norska kvennalandsliðið í handbolta, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, vann öruggan níu marka sigur er liðið mætti Dönum í annarri umferð riðlakeppninnar á Ólympíuleikunum í dag.

Norska liðið mátti þola fjögurra marka tap gegn Svíum í fyrstu umferð og þurftu því á sigri að halda til að hefja stigasöfnunina í riðlinum.

Norsku stelpurnar höfðu algjöra yfirburði í upphafi leiks og náðu strax sex marka forskoti í stöðunni 7-1. Mest náði liðið níu marka forystu í fyrri hálfleik og leiddi að honum loknum með sex mörkum, staðan 14-8.

Dönsku stelpurnar voru í raun aldrei nálægt því að ógna forskoti Norðmanna í síðari hálfleik, og norska liðið vann að lokum öruggan níu marka sigur, 27-18.

Noregur situr nú í öðru sæti riðilsins með tvö stig eftir tvo leiki, jafn mörg og Danir sem sitja í fjórða sæti. Fjögur efstu liðin komast upp úr riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×