Körfubolti

Töpuðu með 26 stigum þær níu mínútur sem Jokic hvíldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Jokic keyrir á körfuna en til varnar er Bandaríkjamaðurinn Anthony Davis.
Nikola Jokic keyrir á körfuna en til varnar er Bandaríkjamaðurinn Anthony Davis. Getty/Gregory Shamus

Serbar mæta til leiks í körfuboltakeppni Ólympíuleikana í París með hinn öfluga Nikola Jokic í fararbroddi.

Jokic var valinn mikilvægasti leikmaður NBA deildarinnar á síðasta tímabili og var að vinna þau verðlaun í þriðja sinn á fjórum árum. Stórkostlegur leikmaður sem gerir Denver Nuggets að einu besta liði NBA.

Það er líka óhætt að segja að hann sé mikilvægur fyrir serbneska körfuboltaliðið.

Serbía tapaði fyrsta leiknum á móti stórliði Bandaríkjanna 110-84. Stórt tap en það segir ekki alla söguna.

Það var þó ekki hægt að kvarta yfir framlagi Jokic sem var með 20 stig, 8 stoðsendingar, 5 fráköst og 4 stolna bolta í leiknum.

Án hans þá mátti serbneska liðið sín lítils á móti bandarísku stórstjörnunum.

Jokic hvíldi aðeins í níu mínútur og fimmtán sekúndur í leiknum en það var of mikið því þær fóru mjög illa. Serbarnir töpuðu þeim með 26 stigum eða 29-3.

Með Jokic inn á vellinum þá var staðan 81-81.

Serbarnir skoruðu því aðeins samtals þrjú stig á níu mínútum þegar Jokic sat á bekknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×