Erlent

Mót­mæli vegna endur­kjörs Venesúela­for­seta

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Veggspjöld af Maduro í ljósum logum í Caracas í dag. 
Veggspjöld af Maduro í ljósum logum í Caracas í dag.  AP

Efnt hefur verið til mótmæla víða í Venesúela vegna endurkjörs Nicolás Maduro í embætti forseta. Maduro hlaut 51 prósent atkvæða, þvert á það sem útgönguspár gerðu ráð fyrir og hefur stjórnarandstaðan þar í landi sagt kosningarnar meingallaðar.

Við aðalherstöðina í höfuðborginni Caracas safnaðist fólk saman og kveikti eld í áróðursveggspjöldum Maduro, samkvæmt umfjöllun CNN. Endurkjörið hefur vakið upp heift og telja sérfræðingar ný bylgja óeirða í landinu sé yfirvofandi. 

Stjórnarandstaðan undir forystu Mariu Corinu Machado sakar yfirvöld um kosningasvindl en meðlimum hennar var til að mynda meinaður aðgangur inn í höfuðstöðvar kjörstjórnarinnar þar sem atkvæði voru talin í gærkvöldi og í nótt. 

CNN hefur eftir Machado að samkvæmt gögnum stjórnarandstöðunnar hafi Edmundo Gonzalez mótframbjóðandi Maduro sigrað kosningarnar með sjötíu prósent atkvæða gegn þrjátíu prósent. „Við unnum, það vita það allir,“ hefur miðillinn eftir henni. 

Bandaríkin, Perú og Síle eru meðal þeirra ríkja sem hafa gagnrýnt framkvæmd kosninganna og gert ákall eftir því að yfirvöld í Venesúela birti ítarlegar niðurstöður kosninganna umsvifalaust. Lögum samkvæmt verði niðurstöður að vera aðgengilegar öllum. 

Þögul mótmæli á Íslandi

Samtökin No Borders efndu til þögulla mótmæla við Hallgrímskirkju fyrir hönd samfélags flóttafólks frá Venesúela á Íslandi í dag.  

Yfirlýst markmið mótmælanna var að fordæma einræði og meðvirkni ríkisstjórna í heiminum auk þess að vara við fólksflutningabylgju sem gæti orðið vegna úrslitanna.

Vísir/Arnar
Vísir/Arnar
Vísir/Arnar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×