Erlent

Úkraínu­menn að­stoða upp­reisnar­menn í Malí gegn Wagner-liðum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
„Heimatilbúinn“ minnisvarði um fallna liðsmenn Wagner og stofnanda hópsins, Yevgeny Prigozhin, í Moskvu.
„Heimatilbúinn“ minnisvarði um fallna liðsmenn Wagner og stofnanda hópsins, Yevgeny Prigozhin, í Moskvu. AP/Pavel Bednyakov

Úkraínumenn segjast hafa átt þátt að málum þegar aðskilnaðarsinnar og jíhadistar í Malí sátu fyrir og drápu fjölda málaliða Wagner. Fram kom á Telegram rás tengdri forystu Wagner í gær að fjöldi liðsmanna hópsins hefði verið drepinn í síðustu viku.

Þar sagði að Wagner og hermenn herforingjastjórnar Malí hefðu barist í fimm daga gegn aðskilnaðarsinnum og ýmsum hópum jíhadista, sem hefðu meðal annars beitt þungavopnum og drónum. Meðal þeirra sem féllu í bardögunum var Sergei Shevchenko, einn foringja Wagner.

Andrii Yusov, talsmaður leyniþjónustu úkraínska hersins (GUR), sagði í gær að uppreisnarmennirnir hefðu fengið nauðsynlegar upplýsingar, og ekki bara upplýsingar, til að heyja árangursríka baráttu gegn „rússneskum stríðsglæpamönnum“.

Yusov vildi ekki gefa það upp hvort úkraínskir hermenn hefðu tekið þátt í átökunum eða væru í landinu.

Stjórnvöld í Malí hafa barist við ýmsa uppreisnarhópa í meira en áratug og óskuðu eftir aðstoð frá Wagner eftir að herforingjastjórn komst til valda árið 2020. 

Samkvæmt umfjöllun Guardian eru úkraínskir hermenn taldir vera virkir í Súdan, þar sem liðsmenn Wagner hafa einnig tekið þátt í bardögum. Serhii Kuzan, stjórnandi Úkraínsku öryggis- og samvinnustofnunarinnar í Kænugarði, segir ásókn Rússa í auðlindir í Afríku eina ástæðu þess að Úkraínumenn hafa beint spjótum sínum að liðsmönnum Wagner í álfunni.

 Þá horfi þeir einnig til þess að draga úr styrk hópsins og refsa fyrir aðkomu hans að stríðinu í Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×