Handbolti

Þórir með stelpurnar sínar á sigur­braut í París

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Henny Reistad kom aftur inn í norska landsliðið í dag og skoraði fjögur mörk.
Henny Reistad kom aftur inn í norska landsliðið í dag og skoraði fjögur mörk. Getty/Buda Mendes

Stelpurnar hans Þóris Hergeirssonar í norska handboltalandsliðinu unnu sex marka sigur á Suður Kóreu, 26-20, í dag í þriðja leik sínum á Ólympíuleikunum í París.

Noregur tapaði óvænt á móti Svíum í fyrsta leik sínum en hefur síðan svarað með tveimur sigrum í röð, á Danmörku og nú Suður Kóreu.

Þórir gat telft fram fullu liði í fyrsta sinn á þessum Ólympíuleikum eftir að ljóst varð að besta handboltakona heima undanfarin ár, Henny Reistad, var orðin leikfær.

Hornamaðurinn Stine Skogrand var markahæst í norska landsliðinu með fimm mörk en skoraði nokkur þeirra með flottum langskotum. Veronica Kristiansen og Reistad voru báðar með fjögur mörk. Hin 44 ára Katrine Lunde átti stórleik í norska markinu í seinni hálfleiknum.

Norsku stelpurnar byrjuðu vel og komust í 2-0 og 4-1 í upphafi leiks.

Eftir þrjú kóresk mörk í röð og jafna stöðu í 5-5 þá sendi Þórir stórstjörnuna Henny Reistad inn á völlinn og hún fiskaði víti eftir nokkrar sekúndur.

Norska liðið var alltaf skrefinu á undan en þær kóresku gáfu ekkert eftir og skoruðu meðal annars sirkusmark þegar þær voru marki undir.

Reistad var augljóslega smá ryðguð eftir fjarveruna og hlutirnir gengu ekki alveg upp hjá henni í fyrri hálfleiknum.

Noregur var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13-11, eftir að þær kóresku skoruðu síðasta mark hálfleiksins úr vítakasti.

Reistad skoraði tvö mörk í upphafi seinni hálfleiksins og þær norsku voru komnar fjórum mörkum yfir, 17-13. Þegar hálfleikurinn var næstum því hálfnaður var munurinn orðinn sex mörk, 20-14.

Katrine Lunde var komin í norska markið og reyndist þeim kóresku afar erfið viðureignar. Lunde varði sjö af fyrstu ellefu skotunum sem komu á hana í leiknum.

Sigur norska liðsins var aldrei í hættu í þessum ójafna seinni hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×