Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að fregnir af aukinni verðbólgu og hækkun matvöruverðs slægu hann illa og bentu til þess að stjórnmálin, bankarnir og atvinnulífið hefðu brugðist fólkinu í landinu. Nú dyggði ekkert annað en að fólk léti í sér heyra.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, er ekki sammála þessari greiningu Ragnars Þórs.
„Það er mjög mikilvægt að það komi fram að verðbólgan er að þróast í rétta átt þó að auðvitað hafi síðasta punktmæling hafi verið óhagstæð. Það er mjög mikilvægt að muna það að fyrir ekki svo löngu vorum við að horfa á verðbólgu sem var að mælast á bilinu átta til tíu prósent. Núna erum við að horfa á verðbólgu, án húsnæðisliðarins, sem er að mælast rúm fjögur prósent. Það er alveg gríðarlega mikilvæg þróun og breyting sem hefur átt sér stað á einu ári. Það er þess vegna ekki rétt að halda því fram að fyrirtæki landsins séu ekki að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni, að ná niður verðbólgu og skapa skilyrði til vaxtalækkunar,“ segir Sigríður Margrét.
Bjart fram undan
Þá segir hún að þegar horft sé til verðbólguvæntinga sé bjart fram undan. Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði til eins árs bendi til þess að einu ári séu verðbólguvæntingar komnar niður úr átta prósent niður í fimm prósent.
Þegar horft sé til þess hversu skaðleg verðbólgan er sé þetta mikilvæg þróun.
„Frá okkar bæjardyrum séð er augljóst að vaxtalækkunarferillinn hefst, það er ekki spurning um hvort heldur hvenær. Við vitum það öll að núverandi stýrivextir standa fjárfestingum í framtíðarverðmætasköpun fyrir þrifum og draga líka þrótt úr íslenskum hlutabréfamarkaði.“
Húsnæðisliðurinn verstur
Loks segir Sigríður Margrét mikilvægt að kafa undir yfirborðið þegar verðbólgutölur eru greindar, þegar það sé gert sjáist hver hinn raunverulegi sökudólgur sé.
„Þessi verðbólgumæling og þessi staða sem birtist okkur hvað varðar húsnæðisliðinn, hún sýnir hversu staðan er alvarleg hvað þetta varðar. Við vitum það að hlutfall heildarútgjalda heimilanna, sem er að fara í húsnæðisliðinn, það hefur hækkað um helming frá síðustu aldamótum. Við sjáum líka að raunverð húsnæðis hefur rúmlega tvöfaldast síðasta áratuginn.“
Þörf sé á þjóðarátaki í þessum efnum, aðkomu sveitarfélaga, ríkisins, byggingaraðila, og fjármögnun.