Íslenski boltinn

Ólafur um dómgæsluna: „Happa og glappa hvað kemur upp úr hattinum“

Andri Már Eggertsson skrifar
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttar, var ánægður með sigurinn á Keflavík.
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttar, var ánægður með sigurinn á Keflavík. vísir/anton brink

Þróttur vann 4-2 sigur gegn Keflavík í Bestu deild kvenna í fótbolta í kvöld. Heimakonur lentu tveimur mörkum undir en sneru dæminu sér í vil og Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttara, var ánægður með karakter þeirra.

„Það breyttist ekkert eftir að við lentum 0-2 undir. Þetta var slakt í fyrri hálfleik þar sem það var lítið flæði og lítið um hreyfingar. Við nýttum hálfleikinn vel og við fórum að spila út í breiddina og þar kom breytingin og við herjuðum á þær.“

„Það var merkilegt að við skoruðum sennilega úr verstu færunum okkar frekar en þeim bestu en það skipti ekki máli. Mér fannst hugarfarið frábært en það breyttist þar sem það var slakt í fyrri hálfleik en mjög gott í seinni hálfleik,“ sagði Ólafur eftir leik ánægður með sigurinn.

Keflavík fékk ansi ódýra vítaspyrnu í fyrri hálfleik. Ólafi fannst dómgæslan í leiknum ekki góð og að hans mati hefur dómgæslan heilt yfir ekki verið góð á tímabilinu.

„Ég ætla að taka Wenger á þetta og segjast ekki hafa séð þetta en það sem ég sá fannst mér mjög þunnt og mér fannst línan í leiknum ekki góð.“

„Það var mjög tilviljunarkennt hvernig það var dæmt í dag. Því miður erum við að lenda alltof mikið í þessu í þessari deild og það er bara happa og glappa hvað kemur upp úr hattinum.“

Þróttur skoraði þrjú mörk í seinni hálfleik og Ólafur var afar ánægður með spilamennsku liðsins í seinni hálfleik.

„Mér fannst við ná að þreyta þær. Ég hafði ekki áhyggjur þegar við komumst yfir og við fengum færi til þess að loka leiknum fyrr,“ sagði Ólafur Helgi Kristjánsson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×