Tónlist

Frum­sýning á Vísi: Ný­dönsk á slóðum Peter Gabriel og fleiri goð­sagna

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Daníel Ágúst sómar sér vel í stúdíóinu. 
Daníel Ágúst sómar sér vel í stúdíóinu. 

Hljómsveitin Nýdönsk hefur sent frá sér nýtt myndband við lagið Fullkomið farartæki. Myndbandið var tekið upp í hinu sögufræga hljóðveri Real World sem stofnað var af tónlistarmanninum goðsagnarkennda Peter Gabriel á níunda áratugnum, en þar dvaldi hljómsveitin við upptökur á nýrri hljómplötu sem væntanleg er á næstu mánuðum.

„Okkur langaði að fanga þann einstaka anda sem þarna sveit yfir vötnum og kappkosta að koma honum til skila fyrir aðdáendur sveitarinnar,“ segir Stefán Hjörleifsson gítarleikari í samtali við Vísi. Hljómsveitin hefur einnig verið dugleg að birta myndir úr hljóðverinu og nærumhverfi þess á samfélagsmiðlum.

Horfa má á tónlistarmyndbandið hér fyrir neðan.

Klippa: Nýdönsk - Fullkomið farartæki

Himinlifandi með aðstæðurnar

„Það var alveg einstök upplifun að stíga inn í þessa veröld Peter Gabriel og vinna með hans fólki við tónlistarsköpun með þeirri upptökutækni sem hljóðverið býður upp og hentar okkur einstaklega vel,“ bætir Stefán við. 

„Hljóðverið var einmitt hannað með það fyrir augum að byggja skapandi rými fyrir listamenn frá öllum heimshornum til að koma saman og búa til tónlist,“ segir Stefán. Peter Gabriel hafi einmitt látið hafa eftir sér að honum hafi oft fundist hefðbundin hljóðver dauðhreinsuð og skorta það andrúmsloft sem nauðsynlegt sé til að efla listrænan frumleika.

Eins og sjá má í myndbandinu þá er um einstakt rými að ræða þar sem hljómsveitin getur öll verið í sama rými og tekið upp lifandi flutning sem hentar Nýdönsk ákaflega vel. Hljóðverið skartar einstökum tækjakosti og hljóðfærum sem sum hver hafa verið notuð í gegnum tíðina og þannig hefur hljóðverið átt sinn þátt í að skapa tónlistarsöguna. Meðal listamanna sem unnið hafa í Real World eru Tom Jones, Beyoncé, Harry Styles og íslensku listamennirnir Björk og Sigurrós.

Það var Simon Whithead sem gerði myndbandið, Katie May sá um hljóðvinnslu lagsins og Guðmundur Pétursson spilar á gítar ásamt meðlimum Nýdönsk. Lag og texti er eftir Björn Jörund Friðbjörnsson og Daníel Ágúst Haraldsson.

Það er nóg framundan hjá Nýdönsk í haust heldur hljómsveitin sína árlega tónleika í Eldborgarsal Hörpu þann 21. september og í Hofi Akureyri viku síðar. Miðasala er nú í fullum gangi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×