Handbolti

Fabregas bjargaði Frökkum frá því að vera stigalausir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ludovic Fabregas tryggði Frakklandi stig gegn Egyptalandi á Ólympíuleikunum með sínu sjötta marki í leiknum.
Ludovic Fabregas tryggði Frakklandi stig gegn Egyptalandi á Ólympíuleikunum með sínu sjötta marki í leiknum. getty/Harry Langer

Frakkar eru enn án sigurs í handboltakeppni karla á Ólympíuleikunum í París. Heimamenn gerðu jafntefli við Egypta í dag, 26-26.

Franska liðið tryggði sér stig með því að skora síðustu tvö mörk leiksins. Ludovic Fabregas skoraði jöfnunarmarkið í þann mund sem leiktíminn rann út. Frakkland fékk þar með sitt fyrsta stig í B-riðli en Egyptaland er með þrjú stig.

Frakkar voru í miklum vandræðum í fyrri hálfleik og Egyptar leiddu með fjórum mörkum að honum loknum, 11-15.

Egyptaland var svo komið í kjörstöðu til að vinna leikinn en Frakkland gafst ekki upp og náði í stig.

Fabregas skoraði sex mörk fyrir franska liðið en Yahia Omar var markahæstur á vellinum með átta mörk.

Danir eru með fullt hús stiga í B-riðli en þeir rúlluðu yfir Argentínumenn í síðasta leik dagsins, 38-27. Mathias Gidsel fór mikinn í danska liðinu og skoraði þrettán mörk, þar af tíu í fyrri hálfleik. Markametið á Ólympíuleikunum er fimmtán mörk.

Norðmenn eru einnig með fullt hús stiga í B-riðli. Þeir unnu nauman sigur á Ungverjum í fyrsta leik dagsins, 26-25. Alexander Blonz skoraði sigurmark Noregs á síðustu sekúndunni eftir að Thorbjörn Bergerud varði lokaskot Ungverjalands nokkrum sekúndum áður.

Staða Svía í A-riðli þrengdist verulega eftir tap fyrir Slóvenum, 29-24. Svíþjóð er með tvö stig í 5. sæti riðilsins en Slóvenía er með fjögur stig líkt og Króatía, Spánn og Þýskaland.

Spánverjar unnu spræka Japani, 37-33. Japan er án stiga á botni A-riðils.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×