Skoðun

Góða skemmtun kæru lands­menn

Guðrún Hafsteinsdóttir skrifar

Vitundarvakning sem ber yfirskriftina „Góða skemmtun“ stendur yfir í sumar. Markmiðið er að tryggja að við öll getum notið skemmtana á öruggan og ofbeldislausan hátt. Vitundarvakningin er samstarfsverkefni dómsmálaráðuneytisins, lögreglunnar og Neyðarlínunnar, og snýr að því að hvetja fólk til að skemmta sér á ábyrgan hátt og tryggja öryggi allra, á stórum sem smáum viðburðum.

Verslunarmannahelgin, sem nú er runnin í garð, er ein helsta ferðahelgi sumarsins og hefur eftirvæntingin og undirbúningurinn verið mikill. Um helgina munu þúsundir koma saman á fjölmörgum viðburðum og skemmtunum hringinn í kringum landið til að njóta samverunnar og gleðjast.

Við viljum tryggja að allar skemmtanir verði góðar, lausar við ofbeldi, kynferðislega áreitni og aðra óæskilega og meiðandi hegðun. Komum vel fram hvort við annað og verum vakandi fyrir umhverfi okkar, stuðlum að öryggi í samskiptum, virðum mörk og segjum frá ef einhver sýnir óviðeigandi hegðun eða þarf á aðstoð að halda við að koma vel fram við aðra. Með því að vera vakandi fyrir umhverfi okkar getum við öll stuðlað að góðri skemmtun þar sem við upplifum okkur örugg fyrir hverskyns ofbeldi. Það er einfaldlega svo að slagsmál, ógnanir, kynferðislegt ofbeldi og áreitni eru ólíðandi og eiga ekkert skylt við góða skemmtun.

Á vef lögreglunnar og Neyðarlínunnar má finna mikilvægar upplýsingar og ráð til viðburðahaldara, foreldra og ungmenna um hvernig best er að tryggja öryggi á skemmtunum. Kynnum okkur þetta efni og deilum til að stuðla að betri og öruggari skemmtunum um helgina, og það sem eftir lifir sumars.

Góð skemmtun þýðir að við komum heil heim. Við skulum öll leggja okkar af mörkum til að gera sumarhátíðirnar skemmtilegar og ánægjulegar. Förum varlega í umferðinni og munum að eftir einn ei aki neinn.

Frekari upplýsingar um vitundarvakninguna „Góða skemmtun", má finna á vef lögreglunnar og ofbeldisgátt Neyðarlínunnar 112.is.

Gleðilega verslunarmannahelgi kæru landsmenn!

Höfundur er dómsmálaráðherra.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×