Erlent

Lést af völdum sprengju sem var falin fyrir tveimur mánuðum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Útför Haniyeh fór fram í gær.
Útför Haniyeh fór fram í gær. AP/Vahid salemi

Sprengjan sem varð Ismail Haniyeh að bana var smyglað inn á gestaíbúð þar sem hann dvaldi fyrir um það bil tveimur mánuðum síðan. Hún var sett af stað úr fjarlægð þegar staðfesting fékkst á því að Haniyeh væri í íbúðinni.

Frá þessu greinir New York Times og hefur eftir sjö heimildarmönnum, þeirra á meðal tveimur Írönum og bandarískum embættismanni.

Gestaíbúðin er hluti af stærri byggingu sem kölluð er Neshat. Hún er staðsett í einu af fínni hverfum Tehran og er gætt af íranska byltingarverðinu.

Sprengingin er sögð hafa skekið alla bygginguna og þá brotnuðu rúður auk þess sem hluti útveggjar hrundi. Haniye var látinn þegar komið var að og tilraunir til að bjarga lífverði hans báru ekki árangur.

Haniyeh, sem var búsettur í Katar, hafði áður dvalið í íbúðinni en var að þessu sinni staddur í höfuðborginni til að vera viðstaddur innsetningarathöfn nýkjörins forseta.

New York Times hefur eftir írönskum heimildarmönnum sínum að um sé að ræða verulegan álitshnekk fyrir öryggisþjónustur Íran og ekki síst byltingavörðin, sem notar bygginguna fyrir leynilega fundi og til að hýsa mikilvæga gesti á borð við Haniyeh.

Aðrir heimildarmenn segja skipulagningu tilræðisins væntanlega hafa tekið mánuði og augljóst sé að vel hafi verið fylgst með byggingunni.

Hamas og stjórnvöld í Íran segja Ísraela hafa staðið að baki drápinu á Haniyeh en Ísraelar hafa verið afar og undarlega þöglir um málið. David Barnea, yfirmaður Mossad, sagði hins vegar í janúar síðastliðnum að stofnunin myndi elta uppi alla leiðtoga Hamas í kjölfar árásanna 7. október 2023.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×