Körfubolti

Þýska vörnin skellti í lás og Schröder og Wagner drógu sóknarvagninn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dennis Schröder, besti leikmaður síðasta heimsmeistaramóts, skoraði grimmt gegn Frökkum í dag.
Dennis Schröder, besti leikmaður síðasta heimsmeistaramóts, skoraði grimmt gegn Frökkum í dag. getty/Gregory Shamus

Dennis Schröder og Franz Wagner fóru mikinn þegar heimsmeistarar Þýskalands unnu heimalið Frakklands, 71-85, í körfuboltakeppni karla á Ólympíuleikunum í París í kvöld.

Þjóðverjar unnu B-riðilinn með fullu húsi stiga en Frakkar enduðu í 2. sæti með fimm stig. Brasilíumenn, sem unnu Japani í fyrri leik dagsins í riðlinum, 84-102, urðu í 3. sæti og eru komnir áfram í átta liða úrslit. Japan tapaði öllum þremur leikjunum sínum og er úr leik.

Frakkar réðu lítið við þá Schröder og Wagner í leiknum í kvöld. Þeir skoruðu báðir 26 stig. Schröder gaf einnig níu stoðsendingar.

Þjóðverjar voru sex stigum yfir eftir 1. leikhluta, 18-24, og skelltu svo í lás í vörninni í 2. leikhluta. Þar skoruðu Frakkar aðeins níu stig en Þjóðverjar 24 og leiddu með 21 stigi í hálfleik, 27-48.

Þessari forystu ógnaði franska liðið ekki í seinni hálfleik og það varð að játa sig sigrað, 71-85.

Ungstirnið Victor Wembanyama skoraði fjórtán stig og tók tólf fráköst fyrir Frakkland en aðrir leikmenn liðsins lögðu lítið í púkkið.

Riðlakeppninni karlamegin lýkur á morgun með tveimur leikjum í C-riðli. Bandaríkin mæta Púertó Ríkó og Serbía og Suður-Súdan eigast við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×