Erlent

Starmer heldur neyðarfund vegna ó­eirðanna

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Starmer á blaðamannafundinum í gær.
Starmer á blaðamannafundinum í gær. AP

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, hefur boðað til neyðarfundar með Cobra nefndinni í dag vegna óeirðanna sem hafa verið í Bretlandi síðustu daga. Á annað hundrað hafa verið handteknir vegna og fjöldi lögreglumanna slasast í mótmælunum, sem beinast gegn hælisleitendum.

Boðað er til Cobra-fundar þegar neyðarástand af einhverju tagi ríkir í Bretlandi. Síðustu ár voru slíkir fundir reglulegir þegar heimsfaraldur Covid-19 reið yfir landið, og einnig var haldinn Cobra-fundur eftir alvarleg flóð í Bretlandi í nóvember 2019. Þá var Cobra-fundur haldinn í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar í Manchester 2017.

Nefndin sem fundar samanstendur af ráðherrum, lögreglu, leyniþjónustumönnum og öðrum sem málið varða hverju sinni. Markmið nefndarinnar er að taka ákvarðanir og móta stefnu til að vinna að úrlausn neyðarástands.

„Ég fordæmi algjörlega glæpsamlega hegðun hægriöfgahópa nú um helgina. Velkist ekki í vafa um að þeir sem tóku þátt í þessu ofbeldi munu þurfa að standa skil á gjörðum sínum gagnvart lögunum. Lögreglan mun taka menn höndum. Einstaklingar verða hnepptir í varðhald. Ákærur verða gefnar út og sakfellingar fylgja í kjölfarið,“ sagði Keir Starmer á blaðamannafundi í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×