Viðskipti erlent

Hluta­bréfin ruku aftur upp degi eftir hrun

Kjartan Kjartansson skrifar
Útlitið var dökkt í kauphöllinni í Tókýó í gær en hlutabréfaverð tók fljótt við sér í dag.
Útlitið var dökkt í kauphöllinni í Tókýó í gær en hlutabréfaverð tók fljótt við sér í dag. AP/Shohei Miyano/Kyodo News

Nikkei-hlutabréfavísitalan japanska skaust upp um rúm tíu stig í dag, aðeins sólarhring eftir mesta hrun hennar í hátt í fjóra áratugi sem skók vestræna hlutabréfamarkaði. Aðrir asískir markaðir tóku einnig við sér eftir minni lækkun.

Lækkunin í Asíu í gær, fyrst og fremst í Japan þar sem Nikkei hrundi um meira en tólf prósent, hafði í för með sér keðjuverkun á mörkuðum í Bandaríkjunum og Evrópu í gær. Hún var rakin til áhyggna af efnahagshorfum í Bandaríkjunum eftir að atvinnuleysistölur sem voru gefnar út á föstudag voru ekki í samræmi við væntingar.  Sviptingarnar þóttu minna á hrun sem átti sér stað árið 1987 sem breiddi úr sér um allan heim.

Stephen Innes frá SPI Asset Management líkir hækkuninni í dag við björgunarbát í viðtali við AP-fréttastofuna. Oft sé stutt milli hláturs og gráturs á mörkuðunum.

„Hraðar vendingar hlutabréfaviðskipta geta breytt því sem virðist skelfileg staða í hverfula minningu sem menn hlæja oft að í kauphöllinni daginn eftir,“ segir Innes.

Nikkei-vísitalan stendur nú 7,7 prósent hærra en hún gerði fyrir ári en níu prósentum lægra en hún gerði fyrir þremur mánuðum.


Tengdar fréttir

Hrun í hluta­bréfa­mörkuðum ytra

Hlutabréfaverð á mörkuðum í Bandaríkjunum féll umtalsvert í dag, í kjölfar mikillar lækkunar í Asíu og Evrópu. Lækkunin í Asíu og Evrópu kom til vegna áhyggna af bandaríska efnahagnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×