Körfubolti

Serbar með sigur í fram­lengingu og gætu mætt Banda­ríkjunum næst

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Nikola Jokic var með 21 stig, 14 fráköst og 8 stoðsendingar í leiknum.
Nikola Jokic var með 21 stig, 14 fráköst og 8 stoðsendingar í leiknum. Gregory Shamus/Getty Images

Serbíu tókst að tryggja sig áfram í undanúrslit á Ólympíuleikunum með 95-90 sigri í framlengdum leik gegn Ástralíu.

Leikurinn var æsispennandi frá upphafi og venjulegur leiktími dugði ekki til að skilja liðin að. 

Það virtist reyndar sem svo að Serbía ætlaði að hafa sigurinn en Patty Mills skoraði úr mjög erfiðu bakfallsskoti yfir Nikola Jokic og tryggði framlengingu.

Patty Mills setti erfitt skot yfir Nikola Jokic og tryggði framlengingu.X / @FIBA

Það varð allt fyrir ekkert því Serbía hafði betur í framlengingunni. Ástralir voru yfir 87-90 þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir en þá skoruðu Serbar átta stig í röð og fóru með 95-90 sigur.

Þeir eru því komnir áfram í undanúrslit og mæta þar annað hvort Bandaríkjunum eða Brasilíu, sem eigast við í kvöld.

Bandaríkin og Serbía voru saman í C-riðli og mættust þarsíðasta sunnudag en þann leik unnu Bandaríkjamenn 110-84.

Grikkland úr leik og Þýskaland áfram

Fyrr í dag vann Þýskaland leik sinn í 8-liða úrslitum gegn Grikklandi 76-63. Giannis Antetokounmpo átti stórleik og bar gríska liðið á herðum sér eins og oft áður en það dugði ekki til. 

Eftir góða byrjun Grikkja vann Þýskaland sig til baka, staðan jöfn í hálfleik en yfirburðir þýsku heimsmeistaranna of miklir í þeim seinni og niðurstaðan þrettán stiga sigur. 

Þýskaland mætir annað hvort Frakklandi eða Kanada í undanúrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×