Þetta segir Bjarki Oddsson varðstjóri hjá Lögreglunni á Suðurlandi.
Ekki er mikið um þekkta hella á svæðinu við Kerlingarfjöll. Bergvin Snær Andrésson í vettvangsstjórn tjáði fréttastofu fyrr í dag að ekki væri útilokað að mennirnir væru í óþekktum helli eða nýmynduðum helli. Þá hefur því verið velt upp hvort mennirnir gætu verið í jökulsprungu.
„Það liggur bara ekki fyrir eins og staðan er núna. Við göngum út frá öllum mögulegum sviðsmyndum,“ segir Bjarki.
Hann segist ekki hafa neinar upplýsingar um hvaða fólk sé með bílinn á leigu sem fannst við tjaldsvæðið.
„Nei, það er verkefni sem við erum að vinna í núna. Að nálgast upplýsingar um þetta fólk sem við höfum ekki fengið enn en vinnum að því að fá,“ segir Bjarki. Lögregla sé í góðu sambandi við viðkomandi bílaleigu.
Möguleiki sé að einhverjir aðrir eigi þennan bíl.
„Það er ein af fjölmörgum mögulegum sviðsmyndum,“ segir Bjarki. Vel geti verið að einhver annar ótengdur eigi bílinn.
„Vissulega er það möguleiki sem við göngum út frá líka.“
Bjarki segir sífellda endurskoðun í gangi á leitaraðgerðum.
„Við gerum ráð fyrir að klára þennan verkþátt sem er að tengja við þennan bíl. Ef það gengur verður staðan endurmetin. Það er ómögulegt að segja hvernig þetta muni þróast.“
Viðbúið sé að fjölgi í leitarhópnum.