Innlent

Sterkar vís­bendingar um falsboð

Jón Þór Stefánsson skrifar
Leitin hefur verið umfangsmikil.
Leitin hefur verið umfangsmikil. Landsbjörg

Sterkar vísbendingar eru um að tilkynning um að tveir ferðamenn hafi fests í helli sem barst neyðarlínu í gærkvöldi hafi verið falsboð. Tilkynningin varð til þess að viðbragðsaðilar fóru í umfangsmikla leit sem ekki hefur skilað árangri.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi. Þar segir jafnframt að leit verði hætt þangað til frekari vísbendingar komi fram.

„Sem kunnugt er hefur umfangsmikil leit staðið yfir frá því seint í gærkvöldi í nágrenni við Kerlingarfjöll í kjölfar neyðarbeiðni sem barst Neyðarlínunni kl. 22:18 þess efnis að tveir aðilar væru innlyksa í helli á svæðinu,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að lögreglan á Suðurlandi hafi í dag unnið að því með aðstoð tölvurannsóknardeildar að greina uppruna neyðarbeiðninnar.

„Sterkar vísbendingar hafa nú komið fram sem benda til að um falsboð sé að ræða. Í ljósi þessa sem og þess að hin umfangsmikla leit sem staðið hefur yfir frá í gærkvöldi hefur ekki skilað neinum nýjum vísbendingum hefur lögreglustjórinn á Suðurlandi að höfðu samráði við Landsbjörgu ákveðið að fresta leit þar til frekari vísbendingar koma fram.“

Búnir að skoða alla mögulega og ómögulega anga

Í samtali við fréttastofu segir Sveinn Kristján Rúnarsson, hjá lögreglunni á Suðurlandi, að lögreglan muni halda áfram að vinna í málinu þrátt fyrir að leitinni hafi verið frestað að svo stöddu.

„Eina vísbendingin sem við höfum er þessi tilkynning sem segir okkur mjög lítið í sjálfu sér. Við erum búinn að elta alla mögulega og ómögulega anga sem okkur dettur í hug og loka þeim. Við erum ekki með neitt til að vinna með í leitinni sjálfri.“

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×