Innlent

Þjór­fé eins og lúsmý: „Við viljum ekkert fá þetta“

Jón Þór Stefánsson skrifar
Sigmundur Halldórsson segir verkalýðshreyfinguna lítið spennta fyrir því að sjá þjórfé á Íslandi, sem líkja megi við lúsmý.
Sigmundur Halldórsson segir verkalýðshreyfinguna lítið spennta fyrir því að sjá þjórfé á Íslandi, sem líkja megi við lúsmý. Vísir

Sigmundur Halldórsson, sérfræðingur hjá VR og Landssambandi verslunarmanna, segir verkalýðshreyfinguna á Íslandi vera alfarið á móti því að taka upp þjórfé.

„Við gerum allt sem við getum til að halda í það vinnumarkaðsmódel sem við höfum hér á Íslandi, sem hefur reynst okkur mjög vel,“ sagði Sigmundur í Reykjavík Síðdegis í dag þar sem rætt var um þjórfé.

Hann segir að þjórfé sé aðeins byrjað að sjást á íslenskum vinnumarkaði, meðal annars í netþjónustu eins og hjá Wolt, sem er í eigu bandarísks fyrirtækis. Og í ferðaþjónustunni, en þar séu bandarískir ferðamenn duglegir að gefa þjórfé.

Hann segir verkalýðshreyfinguna vera lítið spennta fyrir þjórfé á Íslandi vegna þess að hreyfingin trúi því að fólk eigi að fá mannsæmandi laun fyrir sína vinnu. „Reynslan frá þeim löndum þar sem þetta er algengt, sérstaklega í Bandaríkjunum, hún er þannig að fólk þarf að reiða sig á þetta til þess að sjá sér framfæri.“

Sigmundur segir að þess vegna hvetji hann þá sem ferðast um Bandaríkin að greiða starfsfólki veitingastaða þjórfé svo þau geti verið á mannsæmandi launum.

Þá segist Sigmundur ekki hafa heyrt í neinum sem tekur þjórfé á Íslandi fagnandi. „Einhver sagði að þetta er nánast eins og lúsmý, við viljum ekkert fá þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×