Erlent

Þúsundir gagn-mótmælenda kæfðu boðaðar ó­eirðir

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þúsundir söfnuðust saman til að mótmæla hatri gegn flóttafólki og innflytjendum.
Þúsundir söfnuðust saman til að mótmæla hatri gegn flóttafólki og innflytjendum. AP/PA

Þúsundir Breta söfnuðust saman í borgum víða um Bretland í gær og tóku höndum saman til að vernda miðstöðvar fyrir flóttamenn og aðra staði þar sem óttast var að óeirðarseggir myndu koma saman.

Um það bil 6.000 lögreglumenn þjálfaðir í að taka á óeirðum voru í viðbragðsstöðu vegna boðaðra mótmæla gegn flóttafólki og öðrum innflytjendum en búið var að bera kennsl á um það bil 40 staði sem voru taldir í sérstakri hættu eftir bollaleggingar óeirðarseggja á samfélagsmiðlum.

Lítið varð hins vegar úr mótmælum þeirra sem hugðust ganga gegn flóttafólki og innflytjendum, þar sem gríðarlegur fjöldi gagn-mótmælenda safnaðist saman við umrædda staði og lýsti yfir stuðningi við fyrrnefnda hópa.

„Flóttafólk velkomið“, „Rasistana burt“ og „Ömmur gegn Nasistum“ stóð meðal annars á baráttuspjöldum gagn-mótmælenda í Lundúnum, Liverpool, Birmingham, Brighton og Bristol.

Í Liverpool mynduðu gagn-mótmælendur vegg fyrir utan kirkju sem var meðal fyrirhugaðra skotmarka, þar sem flóttafólk getur sótt ráðgjöf.

Til stympinga kom í Aldershot í Hampshire og í Blackpool en lögregla greip inn í.

Þá voru fimmtán handteknir í höfuðborginni en samkvæmt lögreglu var um að ræða einstaklinga sem virtust ekki hafa nein skilaboð að færa heldur voru aðeins að nýta tækifærið til að sýna and-félagslega hegðun.

Stjórnvöld hafa gripið til afdráttarlausra aðgerða til að mæta mótmælaöldunni sem reis á dögunum eftir árás á danstíma fyrir börn í Southport í síðustu viku. Þrjár stúlkur á aldrinum 6 til 9 ára létu lífið og fleiri eru enn á sjúkrahúsi.

Yfirvöld gera ráð fyrir fleiri mótmælum um helgina, sem mögulega gætu orðið að óeirðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×