Sport

Duplantis mætti skelþunnur í við­tal morguninn eftir að hafa unnið gullið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Armand Duplantis er ein skærasta stjarna frjálsu íþróttanna.
Armand Duplantis er ein skærasta stjarna frjálsu íþróttanna. GETTY/Martin Rickett

Armand Duplantis hafði ærna ástæðu til að fagna eftir að hann vann til gullverðlauna í stangarstökki á Ólympíuleikunum í París. Og miðað við ástandið á honum daginn eftir virðist hann hafa tekið vel á því í fögnuðinum.

Duplantis sló eigið heimsmet þegar hann lyfti sér yfir 6,25 metra í úrslitum stangarstökksins. Þetta er í níunda sinn sem hann bætir heimsmetið. Duplantis stórbætti Ólympíumetið í leiðinni en það var 6,03 metrar.

Morguninn eftir að hafa slegið heimsmetið og unnið gullið mætti Duplantis í viðtal á EuroSport. Og þar var kappinn heldur framlágur.

„Já, þetta var gott,“ sagði vel rámur Duplantis er hann var spurður út í gærkvöldið. „Ég vildi fagna með mínum nánustu. Það er erfitt að skilja þetta. Ég held að ég hafi ekki meðtekið allt. Allir mínir nánustu eru hér. Þetta er enn frekar súrrealískt og brjálað.“

En ef einhver átti skilið að fagna vel og lengi var það Duplantis sem varð einnig Ólympíumeistari í Tókýó fyrir þremur árum. Þá stökk hann yfir 6,02 metra. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og Duplantis stekkur alltaf hærra og hærra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×