Sport

Keppti með grímu og sól­gler­augu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Raven Saunders mundar kúluna.
Raven Saunders mundar kúluna. getty/Michael Kappeler

Bandaríski kúluvarparinn Raven Saunders vakti talsverða athygli í undanúrslitum kvenna á Ólympíuleikunum í París í morgun.

Saunders kastaði 18,62 metra og lenti í 4. sæti í seinni undanriðlinum. Erna Sóley Gunnarsdóttir endaði í 11. sæti í fyrri undanriðlinum með kasti upp á 17,39 metra.

Frammistaða Saunders vakti ekki bara athygli heldur einnig að hán keppti með grímu og sólgleraugu, svo ekkert sást í andlit háns.

Saunders segist hafa vanist því að keppa með grímu á meðan kórónuveirufaraldrinum stóð og haldið því áfram eftir að honum lauk. Hán segir að gríman hjálpi til við einbeitingu og forði því að aðrir keppendur tali við hán.

Saunders vann silfur á Ólympíuleikunum í Tókýó fyrir þremur árum. Þegar hán tók við silfurmedalíunni myndaði hán X með höndunum. Að háns sögn átti X-ið að tákna vegamót þar sem allt kúgað fólk mætist. Saunders vonaðist jafnframt til að silfrið myndi hjálpa öllu fólki í heiminum sem er að berjast en hefur ekki tækifæri til að tjá sig.

Þrátt fyrir að íþróttafólki sé allajafna bannað að mótmæla á verðlaunapalli á Ólympíuleikum slapp Saunders við refsingu.

Saunders fékk hins vegar eins og hálfs árs bann fyrir að missa af þremur lyfjaprófum og keppti af þeim sökum ekki á HM í fyrra.

Úrslitin í kúluvarpi kvenna fara fram á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×