Handbolti

Þórir með norska liðið í úr­slita­leik Ólympíu­leikanna

Smári Jökull Jónsson skrifar
Norska liðið fagnar sæti í úrslitaleiknum.
Norska liðið fagnar sæti í úrslitaleiknum. Vísir/Getty

Norska kvennalandsliðið í handknattleik tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaleik Ólympíuleikanna eftir öruggan sigur á Dönum. Þórir Hergeirsson er því á leið í sinn annan úrslitaleik á Ólympíuleikum sem þjálfari liðsins.

Leikurinn í kvöld var jafn og spennandi lengi vel í fyrri hálfleik. Norðmenn komust í 4-1 í upphafi en Danir jöfnuðu í 4-4 og leikurinn var í járnum allt þar til norska liðið breytti stöðunni úr 8-8 í 11-8 með því að skora þrjú síðustu mörk fyrri hálfleiks.

Þær héldu síðan áfram í þeim síðari. Eftir níu mínútna leik var munurinn orðinn sex mörk og það er munur sem þetta frábæra norska lið missir ekki svo auðveldlega frá sér.

Munurinn varð mestur sjö mörk í stöðunni 20-13 og eftirleikurinn nokkuð auðveldur fyrir Noreg. Lokatölur 25-21 og norska liðið því komið í úrslitaleik Ólympíuleikanna í fyrsta sinn síðan í London árið 2012 en liðið hefur unnið bronsverðlaun á síðustu tveimur leikum.

Þórir Hergeirsson getur þar með unnið sitt annað Ólympíugull á laugardag en hann stýrði Noregi til sigurs árið 2012 í London. 

Kari Brattset Dale var markahæst í norska liðinu í kvöld með fjögur mörk en alls skoruðu ellefu leikmenn Noregs í leiknum. Katrine Lunde varði 37% þeirra skota sem hún fékk á sig en hún hefur verið frábær á mótinu.

Norðmenn mæta Frökkum í úrslitaleik á laugardag en Danir berjast við frændur sína Svía um bronsið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×