Sport

Söfnun hafin fyrir fjöl­skyldu Du­kic

Smári Jökull Jónsson skrifar
Söfnun er hafin fyrir fjölskyldu Lazar Dukic sem lést á heimsleikunum í CrossFit.
Söfnun er hafin fyrir fjölskyldu Lazar Dukic sem lést á heimsleikunum í CrossFit. Instagramsíða Lazar Dukic

Söfnun er hafin fyrir fjölskyldu Lazar Dukic sem lést á heimsleikunum í CrossFit í dag. Dukic drukknaði þegar fyrsta keppnisgrein dagsins fór fram.

Slysið á heimsleikum CrossFit í dag vakti mikla athygli og hafa skipuleggjendur leikanna fengið töluverða gagnrýni í kjölfarið en Dukic drukknaði þegar sundhluti fyrstu greinar leikanna fór fram. Í yfirlýsingu forráðamanna mótsins kom fram að þeir muni aðstoða yfirvöld við rannsókn málsins en keppni á leikunum var frestað í dag og óvíst er hvort hún hefjist á nýjan leik.

Dukic var nafngreindur í færslu á X-síðu heimsleikanna í dag þar sem fram kemur að forráðamenn mótsins muni tjái sig frekar þegar möguleiki er á.

Nú hefur verið komið af stað söfnun fyrir fjölskyldu Dukic í gegnum fjáröflunarsíðuna GoFundMe. Þegar þetta er skrifað hafa tæplega 190.000 dollarar safnast og ljóst að CrossFit heimurinn ætlar að gera sitt til að auðvelda fjölskyldu Dukic lífið í kjölfar andláts hans.

„Þekktur fyrir góðmennsku sína, húmor og hjálpsemi fylgdu Lazar ferskir vindar hvert sem hann fór. Fyrir utan afrek hans í íþróttum var Lazar annt um þá sem stóðu næst honum og studdu hann af krafti. Hlýja hans og gleði hafði áhrif á alla sem hann kynntist,“ segir í texta á fjáröflunarsíðunni.

Ljóst er að forráðamenn heimsleikanna munu þurfa að svara fyrir slysið sem varð í dag en gagnrýni í þeirra garð hefur meðal annars snúið að skorti á öryggisgæslu þegar sundhluti áðurnefndrar fyrstu greinar fór fram í dag.


Tengdar fréttir

Keppandi á heims­leikunum í Cross­Fit drukknaði í keppni

Forsvarsmenn heimsleikana í CrossFit hafa staðfest að keppandi hafi fundist látinn eftir að hafa drukknað í einni af greinum dagsins. Leit hafði staðið yfir eftir að keppandinn skilaði sér ekki yfir endalínuna í sundhluta greinarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×