Erlent

Tveir hand­teknir fyrir að dreifa röngum upp­lýsingum á netinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla er í viðbragðsstöðu vegna mögulegra mótmæla og óeirða um helgina.
Lögregla er í viðbragðsstöðu vegna mögulegra mótmæla og óeirða um helgina. AP/PA

Lögregluyfirvöld á Bretlandseyjum hafa handtekið 55 ára konu fyrir að birta færslu á samfélagsmiðlum með röngum upplýsingum um árásarmanninn sem varð þremur stúlkum að bana í Southport í síðustu viku.

Konan, sem er sögð eiga heima nálægt Chester, er grunuð um að hafa birt færsluna til að villa um fyrir fólki og hvetja til haturs gegn innflytjendum. 

Efnt hefur verið til mótmæla og óeirðir brotist út í kjölfar árásarinnar en þær hafa aðallega beinst gegn flóttafólki og innflytjendum. Lögregla segir ofbeldið drifið áfram af hatursorðræðu og röngum upplýsingum á samfélagsmiðlum.

Rekja má upphafið til þess að röngum upplýsingum var dreift um árásarmanninn og bakgrunn hans en lögregla sá sig í framhaldinu tilneydda til að birta nafn hans, jafnvel þótt hann væri undir lögaldri.

„Þetta er þörf áminning um hættur þess að birta upplýsingar á samfélagsmiðlum án þess að kanna áreiðanleika þeirra,“ segir yfirlögregluþjónninn Alison Ross. „Þetta er einnig viðvörun um það að við erum öll ábyrg gjörða okkar, hvort sem er á netinu eða í raunheimum.“

Þekktir einstaklingar, til að mynda leikarinn Laurence Fox og hinn umdeildi Andrew Tate, hafa verið sakaðir um að taka þátt í að dreifa áróðursefni í tengslum við árásirnar. Sérfræðingar segja falsupplýsingarnar síðan hafa verið notaðar af háværum minnihluta til að stuðla að sundrung og ofbeldi.

Lögregla handtók einnig 39 ára mann í Lancashire í gær en sá er grunaður um að hafa notað samfélagsmiðla til að hvetja til ofbeldis og um að hafa tekið þátt í því sjálfur. 

Lögregluyfirvöld segja handtökuna til marks um að það verði ekki aðeins gripið til aðgerða gegn þeim sem taka þátt í óeirðum og ofbeldi, heldur einnig gegn hvatamönnum þess á internetinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×