Sport

Heimsleikarnir halda á­fram þrátt fyrir frá­fall Dukic

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lazar Dukic, 1995-2024.
Lazar Dukic, 1995-2024.

Þrátt fyrir að keppandi á heimsleikunum í CrossFit, Lazar Dukic, hafi látist í gær halda leikarnir áfram.

Dukic drukknaði í fyrstu keppnisgrein heimsleikanna í Texas í gær. Þegar hann skilaði sér ekki í mark var farið að leita að honum. Forsvarsmenn heimsleikanna staðfestu svo að keppandi, sem reyndist vera Dukic, hefði fundist látinn.

Keppni var hætt í gær eftir fráfall Dukic en forsvarsmenn heimsleikanna hafa greint frá því að þeir haldi áfram í dag.

Í yfirlýsingu frá heimsleikunum segir að gærdagurinn hafi verið sá sorglegasti í sögu CrossFit. Þar segir ennfremur að fyrstu viðbrögð hafi verið að loka sig af, einangra sig og syrgja. En eina leiðin til að sigrast á sorginni sé að syrgja og það sé best að gera það saman. 

„Í okkar samfélagi vottum við virðingu okkar með því að koma saman og framkvæma erfiðu hlutina. Í þessum anda höfum við ákveðið að halda keppni á heimsleikunum 2024 áfram. Þessi helgi verður helguð Lazar Dukic,“ segir í yfirlýsingunni.

Heimsleikunum, sem fara fram í Texas að þessu sinni, lýkur á sunnudaginn.


Tengdar fréttir

Söfnun hafin fyrir fjöl­skyldu Du­kic

Söfnun er hafin fyrir fjölskyldu Lazar Dukic sem lést á heimsleikunum í CrossFit í dag. Dukic drukknaði þegar fyrsta keppnisgrein dagsins fór fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×