Íslenski boltinn

„Þetta er vonandi á­vísun á eitt­hvað gott“

Hinrik Wöhler skrifar
Eftir fjóra ósigra í röð getur Guðni Eiríksson, þjálfari FH, leyft sér að fagna.
Eftir fjóra ósigra í röð getur Guðni Eiríksson, þjálfari FH, leyft sér að fagna. Vísir/Hulda Margrét

Eftir fjóra tapleiki í röð gat Guðni Eiríksson, þjálfari FH, loksins fagnað sigri en Hafnfirðingar sigruðu Fylki 3-1 á Kaplakrikavelli í Bestu deild kvenna í kvöld.

Það var létt yfir þjálfaranum þegar hann var gripinn viðtal skömmu eftir leikinn.

„Það var rosalega ljúft að upplifa sigurtilfinningu aftur, langt síðan að maður upplifði þetta. Þungu fargi létt, orð að sönnu,“ sagði Guðni.

Guðni viðurkenndi að leikplanið hafi ekki gengið fullkomlega upp en sá þó marga góða kafla í spilamennsku liðsins.

„Engan veginn, en margt gekk upp og mörkin okkar þrjú voru góð. Vinnuframlagið heilt yfir var mjög gott og þær sem komu inn skiluðu hlutverki líka þannig þetta var liðssigur,“ sagði Guðni þegar hann spurður út í upplegg dagsins.

Breukelen Woodard kom Hafnfirðingum á bragðið á 29. mínútu með laglegu marki og tvöfaldaði síðan forystuna á 70. mínútu með marki úr vítaspyrnu. Guðni var virkilega sáttur með hennar framlag í kvöld.

„Hún er frábær og sannarlega haukur í horni fyrir okkur. Hún skipti okkur miklu máli og gerði þetta virkilega vel, frábært mark hjá henni og gott víti. Þetta er vonandi ávísun á eitthvað gott í kjölfarið.“

Gestirnir úr Árbæ náðu að klóra í bakkann rétt undir lokin en Guðni var þó ekki órólegur á hliðarlínunni.

„Fyrst að við náðum þriðja markinu var ég rólegur. Það var stutt eftir þegar þær skora sitt mark en ég hefði ekki verið svona slakur í stöðinni 2-1 en 3-1 og lítið eftir þá leit þetta þægilega út.“

„Auðvitað er aldrei þægilegt og það er langt síðan að maður hefur unnið síðast leik þá er maður aldrei í rónni en þessi þrjú mörk gerði þó helling,“ bætti Guðni við.

Valgerður Ósk Valsdóttir rak smiðshöggið á sigur FH með þriðja marki heimaliðsins en markið var einkar laglegt, viðstöðulaust skot með góðum snúning sem markvörður Fylkis réði ekki við.

Var þetta beint af æfingasvæðinu?

„Klárlega, hún gerði svona í gær og endurtók leikinn í dag. Svo sannarlega beint af æfingasvæðinu,“ sagði Guðni glettinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×