Körfubolti

Allt fallið í ljúfa löð hjá Bogda­no­vic og Melo

Siggeir Ævarsson skrifar
Bogda­no­vic og Melo léttir í leikslok
Bogda­no­vic og Melo léttir í leikslok FIBA

Bogdan Bogdanović, leikmaður Serbíu á Ólympíuleikunum, náði að hrista hressilega upp í fjölmörgum stuðningsmönnum Bandaríkjanna þegar liðin áttust við í undanúrslitum leikanna.

Serbar voru hársbreidd frá því að koma vonum Bandaríkjamanna um sigur á leikunum í mikið uppnám og Bogdanović átti sinn þátt í því þegar hann setti stóran þrist á ögurstundu. Hann tók sig til og fagnaði með því að benda með þremur fingrum á höfuð sér en Carmelo Anthony, eða Melo eins og hann er oftast kallaður, fyrrum leikmaður bandaríska landsliðsins, var þekktur fyrir að fagna á þennan hátt.

Netverjar voru fljótir að hlaupa til og lesa allt milli himins og jarðar í þessi fagnaðarlæti, en Melo sat sjálfur á hliðarlínunni og fylgdist með leiknum. Einhver benti á að hann hefði sjálfur fagnað svona fyrir framan Bogdanovic á Ólympíuleikunum 2016 og vildi meina að hann hefði verið að „hefna“ sín með því að gera grín að Melo.

Þá þótti mörgum Bogdanovic vera að gera lítið úr Melo eða í það minnsta að gera grín að honum, en eins og stundum áður þá virðast netverjar hafa hlaupið á sig áður en öll kurl voru komin til grafar.

Bogdanovic tjáði sig sjálfur um málið eftir að Serbar tryggðu sér bronsverðlaunin á leikunum.

„Ég veit að sumir halda að ég hafi verið að reyna að ögra. En fyrir mér þá snýst þetta um að njóta leiksins og að takast á. Ég er eingöngu með ást í hjarta og virðingu fyrir því að Melo sé hér, enda er hann FIBA goðsögn. Þetta er eingöngu virðing og samkeppni.“

Melo sjálfur virðist ekki hafa tekið þetta nærri sér á nokkurn hátt en hann var mættur á hliðarlínuna í bronsleiknum og þeir félagar féllust í faðma eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×