Íslenski boltinn

Glugginn lokast: Præst í KR þegar leik­tíðinni lýkur og Sowe heldur kyrru fyrir

Sindri Sverrisson skrifar
Præst gengur í raðir KR að leiktíðinni lokinni.
Præst gengur í raðir KR að leiktíðinni lokinni. KR

Á miðnætti í kvöld lokast seinni félagaskiptagluggi tímabilsins í efstu deildum karla og kvenna í fótbolta. Vísir fylgdist með því helsta sem gerðist á lokadegi gluggans.

Segja má að nokkur áhugaverð félagaskipti hafi átt sér stað í dag. Þá er enn möguleiki að einhver þeirra fari í gegn áður en klukkan slær miðnætti en það helsta sem hefur gerst þegar þetta er skrifað klukkan 22.45 á þriðjudagskvöld hefur verið meira af orðrómum en staðfestum félagskiptum. 

Við höfum þó fengið að sjá nokkur vistaskipti, þau helstu sem má sjá hér að neðan.

KR hefur samið við danska miðjumanninn Matthias Præst en hann gengur þó ekki í raðir félagsins fyrr en eftir að yfirstandandi leiktíð er lokið.

Leiknir Reykjavík, sem er í harðri fallbaráttu í Lengjudeildinni, hefur fengið miðvörðirnn Dusan Brkovic í sínar raðir. Hann lék með KA á síðustu leiktíð, samdi við FH fyrir þetta tímabil og er nú mættur í Breiðholtið á láni.

Meira af Leikni en Omar Sowe hefur ákveðið að halda kyrru fyrir í Breiðholti. Framherjinn var orðaður við Fylki en verður samningslaus að leiktíðinni lokinni og ætlar þá að skoða mál sín.

Valsmenn voru fljótari en flestir en í gær var tilkynnt að Orri Hrafn Kjartansson væri mættur aftur á Hlíðarenda eftir að hafa verið á láni hjá Fylki fyrri hluta sumars. Á sama tíma kynntu Valsmenn nýjan leikmann til leiks, sænskan framherja sem kostaði liðið sjö milljónir króna ef marka má sænska fjölmiðla.

Textalýsingu Vísis frá gluggadeginum má sjá hér að neðan. Ef hún birtist ekki þarf að endurhlaða síðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×