Spánn hefur borið höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir á Evrópumótum ungmenna síðustu ár og unnið EM U20- og U18-liða, og því ljóst að það yrði við ramman reip að draga fyrir íslensku strákana í dag.
Ísland var þó tveimur mörkum yfir í hálfleik í dag, 13-11, en Spánn vann að lokum fimm marka sigur, 32-27.
Tapið breytir þó ekki því að Ísland getur unnið til verðlauna á EM. Liðið vann Svíþjóð í gær með fimm marka mun og er með tvö stig í sínum milliriðli, fyrir lokaleikinn við Noreg á fimmtudag. Með sigri þar kemst Ísland í undanúrslit en þangað fara tvö efstu lið riðilsins. Spánn vann Noreg í gær, 39-32, og Svíþjóð vann Noreg 36-26 í dag.
Spánn er því með 4 stig, Ísland og Svíþjóð 2 en Noregur 0. Tapi Ísland fyrir Noregi á fimmtudaginn er hins vegar ljóst að Ísland gæti ekki náð 2. sæti, vegna innbyrðis markatölu.
Markaskorar Íslands í dag, samkvæmt HSÍ:
Dagur Árni Heimisson 9, Ágúst Guðmundsson 9, Harri Halldórsson 2, Stefán Magni Hjartarson 2, Jens Bragi Bergþórsson 2, Garðar Ingi Sindrason 2 og Magnús Dagur Jónatansson 1.
Jens Sigurðarson varði 8 skot og Elías Sindri Pilman varði 1 skot.