Erlent

Tólf ára fangelsi fyrir að styrkja Úkraínu um þúsund­kalla

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ksenia Karelina við réttarhöldin í júní.
Ksenia Karelina við réttarhöldin í júní. AP

Rússneskur dómstóll hefur dæmt Kaseniu Karelinu, áhugaballerínu með bandarískan og rússneskan ríkisborgararétt, til tólf ára fangelsisvistar fyrir landráð. Glæpur hennar var að styrkja Úkraínu um jafnvirði um sjö þúsund krónur.

Karelina játaði í réttarhöldum sem fóru fram fyrir luktum dyrum. Hún var búsett í Los Angeles og öðlaðist bandarískan ríkisborgararétt árið 2021. Hún var handtekinn í heimsókn til fjölskyldu sinnar í borginni Yekaterinburg í janúar. Borgin er um sextán hundruð kílómetra austur af höfuðborginni Moskvu.

Saksóknari krafðist fimmtán ára fangelsis. Dómstóllinn í Yekaterinburg komst að þeirri niðurstöðu að Karelina hefði gerst sek um alvarlegt landráð. Hún mun afplána í almennu fangelsi.

Karelina hefur verið sökuð um að hafa með aflað fjár fyrir úkraínsk samtök sem sjá úkraínska hernum fyrir vopnum. Umrædd samtök nefndast Razom og lýstu hneykslan sinni á handtöku Karelinu í janúar.

Christ van Heerden er kærasti Karelinu. Hann sagði í síðustu viku hafa verið ein taugahrúga að fylgjast með réttarhöldunum.

„Ég get með engu móti sett mig í hennar spor eða ímyndað mér hvað hún er að ganga í gegnum.“

Frétt BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×