Innlent

„Ekki sniðugt að vera með fólk sofandi þarna inni“

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur og fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands.
Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur og fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands. vísir/arnar

Skjálftavirkni við Sundhnúksgígaröðina fer vaxandi og hefur verið töluverð síðasta sólarhringinn. Fagstjóri á Veðurstofu Íslands mælir eindregið gegn því að fólk gisti í húsum í norðurhluta bæjarins, líkt og einhverjir hafa verið að gera.

„Það hefur verið talsverð skjálftavirkni síðasta sólarhringinn en það gengur nú stundum í hviðum. En frá viku til viku er hún vaxandi,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands. 

Kvikumagnið undir Svartsengi er orðið meira en fyrir síðasta gos og Benedikt segir umfram þrýsting nú byggjast upp og endurspeglast í aukinni skjáfltavirkni.

Búist er við gosi á hverri stundu og samkvæmt hættumati Veðurstofunnar eru taldar líkur á hraunflæði, sprunguhreyfingum og jafnvel gosopnun innan Grindavíkur. 

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær ítrekaði Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri að fólk væri á eigin ábyrgð í bænum og biðlaði til fólks um að gista þar ekki. Í gærnótt var gist í um tuttugu húsum og þar af um fjórum innan afmarkaðs svæðis í norðurhluta bæjarins, þar sem hættan er talin óásættanleg.

Benedikt tekur undir með lögreglustjóra.

„Það er ansi vafasamt að gista í norðurhluta bæjarins þar sem við getum átt von á atburði sem svipar til þess sem varð í janúar, þegar sprunga opnaðist mjög nálægt bænum. Það er ekkert sem segir að svoleiðis sprunga geti ekki farið inn fyrir bæjarmörkin og inn fyrir byggðina,“ segir Benedikt.

„Það er ekki sniðugt að vera með fólk sofandi þarna inni ef það gerist í fyrsta hluta þegar þetta er að opnast og við náum ekki að rýma. Þetta er spurning um öryggi,“ segir Benedikt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×