Íslenski boltinn

„Vorum ekki til­búnar og það skrifast á þjálfarann“

Andri Már Eggertsson skrifar
Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Tindastóls.
Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Tindastóls. Vísir/HAG

Tindastóll fékk skell í Víkinni þar sem liðið tapaði 5-1. Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Tindastóls, ætlaði þó ekki að dvelja lengi við þennan leik og var strax farinn að einbeita sér að næsta leik gegn Keflavík.

„Ég get ekki útskýrt þetta neitt öðruvísi en að við vorum ekki tilbúnar og það skrifast á þjálfarann. Við fengum á okkur 4 mörk eftir 23 mínútur og það var skelfing að horfa á það,“ sagði Halldór Jón hálf orðlaus eftir 5-1 tap.

Aðspurður hvað útskýrði þessa lélegu byrjun Tindastóls sem gerði það að verkum að liðið var 2-0 undir eftir sex mínútur vildi Halldór frekar hugsa um næsta leik sem er framundan.

„Ég held að það sé ekkert hægt að útskýra þetta. Fyrsta markið sló okkur utan undir. Enn eina ferðina vorum við að gefa föst leikatriði eða byrja illa og núna vorum við að byrja illa því föstu leikatriðin voru fín. Þetta voru ótrúleg vonbrigði en ég ætla gefa skít í það og núna er úrslitakeppnin byrjuð fyrir okkur og þessi leikur er búinn. Við eigum að spila við Keflavík á heimavelli í næsta leik og við verðum að vinna þann leik.“

„Ég ætla að vera jákvæður og þessi leikur er búinn. Sem betur hafði FH betur gegn Keflavík og við höldum áfram.“

Halldór sagði að stelpurnar væru mjög ósáttur eftir leik og hann hafði ekki áhyggjur af því að það yrði erfitt að rífa liðið upp í stórleik gegn Keflavík í síðustu umferð fyrir úrslitakeppnina.

„Stelpurnar eru brjálaðar núna og þetta eru miklir keppnismenn og þær áttu að gera betur og hefðu átt að gera betur í ansi mörgum leikjum. Ég tel að það sé komið að því að drullast til þess að tengja saman hugarfarið og það sem þær vilja gera og ég geri ráð fyrir því að það komi gegn Keflavík í næsta leik,“ sagði Halldór Jón að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×