Þetta kemur fram í tilkynningu Strætó annars vegar og tilkynningu Kynnisferða hins vegar.
Kynnisferðir undirrituðu samning um akstur 10 strætóleiða á höfuðborgarsvæðinu, en áður höfðu Kynnisferðir séð um þjónustu á 11 leiðum. Þá segir að fyrir lok árs 2029 muni allur strætófloti Kynnisferða verða kolefnishlutlaus.
„Samhliða nýjum samningi hafa Kynnisferðir fest kaup á 40 nýjum Iveco strætisvögnum frá BL sem teknir verða í notkun á næstu vikum. Um er að ræða dísilvagna með nýjustu mengunarkröfum en miklar framfarir hafa orðið í mengunarbúnaði dísilbíla á síðustu árum,“ segir í tilkynningu Kynnisferða.
„Við hjá Strætó erum mjög ánægð með þennan samning sem styður okkar markmið um kolefnislausan flota,“ segir Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó. „Við höfum þegar fest kaup á níu rafvögnum og er samningurinn annað skref í átt að þessu mikilvæga markmiði.“