Erlent

Eldur logar í frægu lista­safni í Lundúnum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Vart varð við eldinn um hádegisleytið að staðartíma.
Vart varð við eldinn um hádegisleytið að staðartíma. Aðsend

Eldur logar í hinu víðfræga Somerset-húsi í miðborg Lundúna og eru um 125 slökkviliðsmenn á vettvangi.

Reyksúla sást stíga upp úr þaki byggingarinnar um hádegisleytið á staðartíma of barst útkall til slökkviliðsins klukkan 11:59. Tuttugu slökkvibílar voru þá sendir á vettvang.

Byggingin hýsir Courtauld-listasafnið sem er umfangsmikið safn málverka allt frá endurreisnartímabilinu til tuttugustu aldarinnar. Fræg verk á borð við Bar á Folie-Bergère eftir Édouard Manet og sjálfsmynd Vincents van Gogh með sárabindið á eyranu eru geymd í byggingunni.

Guardian hefur eftir stjórnanda safnsins að eldsvoðinn hafi brotist út í vesturálmu byggingarinnar og að það væru engin málverk geymd þar.

„Það sem ég get staðfest er að vart varð við eld í hádeginu í einu horni vesturálmunnar. Svæðið var samstundis rýmt og gert slökkviliði viðvart sem var fljótt á vettvang,“ er haft eftir Jonathan Reekie formanni stjórnarnefndar safnsins.

„Það eru allir öruggir og í bili viljum við bara leyfa slökkviliði Lundúnaborgar að sinna sínu góða starfi,“ segir hann.

Byggingunni hefur verið lokað og einnig hefur verið lokað fyrir umferð á svæðinu. Eldsupptök liggja ekki fyrir en eins og fram kom hefur ekkert tjón orðið á fólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×