Innlent

„Al­­gjör­­lega ó­­­sam­­mála“ sam­ráð­herra sínum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir mun áfram setja breytingar á útlendingalögum í forgang. Nokkuð sem samráðherra hennar í ríkisstjórn telur að þurfi ekki að gera.
Guðrún Hafsteinsdóttir mun áfram setja breytingar á útlendingalögum í forgang. Nokkuð sem samráðherra hennar í ríkisstjórn telur að þurfi ekki að gera. Vísir/Vilhelm

Dómsmálaráðherra er ósammála samráðherra sínum í ríkisstjórn og formanni Vinstri grænna um að breytingar á útlendingalögum eigi ekki að vera forgangsmál. Hún boðar frekari breytingar í haust og segir núverandi stöðu ekki ganga til lengdar. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra og formaður Vinstri grænna ávarpaði flokksráðsfund í gær, og sagði ekki forgangsmál að gera frekari breytingar á útlendingalöggjöfinni en þegar hefur verið gert.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra fer með málaflokkinn og lagt mikla áherslu á hann frá því hún tók við embætti fyrir rúmu ári.

„Ég er mjög ánægð með að þingið skuli hafa samþykkt breytingar á útlendingalöggjöfinni í júní, og það voru nauðsynlegar breytingar. Ég hef talað mjög eindregið fyrir því að ég vil sjá okkur samræma okkar löggjöf í þessum málaflokki við Norðurlöndin og löndin í kringum okkur,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir.

Ekki hægt að halda áfram á sömu braut

Guðrún hyggst munu halda áfram að tala fyrir breytingum í átt til samræmingar við Norðurlöndin, en hún boðar útlendingafrumvarp á haustþingi og segir málaflokkinn síbreytilegan.

„Ég hef bent á að löndin í kringum okkur hafa gert breytingar á sinni útlendingalöggjöf miklu, miklu örar en okkur hefur tekist að gera.“

Má þá skilja það sem svo að þú sért ósammála Guðmundi Inga um að þetta sé ekki forgangsmál? 

„Ég er algjörlega ósammála því.“

Kostnaður vegna málaflokksins hafi margfaldast á síðasta áratug.

„Það er ekki hægt að halda svona áfram í langan tíma,“ segir Guðrún.

Einnig þurfi að leggja áherslu á aðlögun fólks sem hér fær að vera, en um það séu þau Guðmundur Ingi sammála.

„Meðan ég er í embætti í dómsmálaráðuneytinu er þetta eitt af mínum forgangsmálum og það er löngu orðið tímabært að við náum betur utan um þennan málaflokk heldur en verið hefur síðustu ár,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×